Innlent

Enginn toxoplasmi í innfluttum ferskum búvörum

Jakob Bjarnar skrifar
Nýjustu tíðindi úr herbúðum atvinnurekenda koma kannski ekki öllum á óvart en ef að líkum lætur munu þau Sigmundur Davíð og Sigrún Magnúsdóttir reka upp stór augu.
Nýjustu tíðindi úr herbúðum atvinnurekenda koma kannski ekki öllum á óvart en ef að líkum lætur munu þau Sigmundur Davíð og Sigrún Magnúsdóttir reka upp stór augu.
Innflutningur á ferskum búvörum mun ekki hafa neikvæð áhrif á heilsu manna og dýra segir í fréttatilkynningu frá Félagi atvinnurekenda. Er þá vísað sérstaklega til innflutnings á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti, þetta muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra.

„Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.“

Í tilkynningunni kemur fram að þetta sé meðal niðurstaðna rannsókna sem kynntar eru í skýrslu um innflutning búvöru og heilbrigði manna og dýra, sem ráðgjafarfyrirtækið Food Control Consultants vann fyrir félagið en það „beindi til fyrirtækisins nokkrum spurningum vegna umræðna um innflutning ferskrar búvöru og er þeim svarað í ýtarlegu máli í skýrslunni.“

Toxoplasminn skelfilegi

Einhver gæti haldið því fram að þessar upplýsingar teljist tæplega til tíðinda en fyrir liggur að á einhverjum bæjum mun þetta valda nokkurri furðu. Umræðan sem vísað er til eru líkast til ummæli sem íslenskir stjórnmálamenn hafa haft uppi um meint óheilnæmi erlendra matvæla.

Einkum hafa Framsóknarmenn verið duglegir við að vara við slíku fóðri. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, hefur talað með afgerandi hætti um erlend matvæli, svo varasöm að þau geti breytt hegðunarmynstri heilu þjóðanna. Hann er að tala um toxoplasma:

„Ef menn borða til dæmis kjöt erlendis sem er ekki nógu vel eldað á fólk að hættu að innbyrða þessa sýkingu og hún getur leitt til breytingar á hegðunarmynstri. Þannig að menn hafa jafnvel velt upp þeirri spurningu og rannsakað hvort þetta kunni að breyta hegðun heilu þjóðanna,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars um veiruna þá.

Ég segi nei takk!

Og Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, er ekki heldur hrifin af matvælum öðrum en íslenskum og hefur meðal annars sagt að hún telji langlífi Íslendinga byggjast á góðu mataræði. Var það í tengslum við umræðuna um komu Costco á sínum tíma:

„Viljum við fórna því, að spara kannski einhverjar krónur í innfluttu kjöti, gegn heilsuleysi síðar á ævinni. Ég segi nei takk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×