Skoðun

Til varnar Hrími

Guðmundur Edgarsson skrifar
Hún var furðuleg fréttin sem birtist í Fréttablaðinu fyrir skömmu þess efnis að verslunin Hrím hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga með því að borga kvenkyns starfsmanni lægri laun en starfsbróður.

Kærunefnd janfréttismála komst að þessari niðurstöðu þrátt fyrir að störfin sem starfssystkinin unnu hafi verið ólík auk þess sem karlmaðurinn var í föstu starfi en konan í hlutastarfi. Nefndin úrskurðaði nefnilega að þar sem engir skriflegir ráðningarsamningar hafi verið gerðir sem tilgreindu eðlismun á störfunum tveimur yrði að líta svo á að þau væru  jafnverðmæt. Að auki benti nefndin á að ólöglegt væri að mismuna starfsmönnum eftir starfshlutfalli.

 

Kemur ríkinu ekki við                                       

Þessi frétt er lýsandi fyrir þá tilhneigingu æ fleiri stjórnmálamanna að setja fyrirskipandi lög um mál sem koma ríkinu nákvæmlega ekkert við. Svo fremi sem samningar haldi, varða kjör starfsmanns vitaskuld eingöngu hann sjálfan og vinnuveitanda. Eigandi fyrirtækis á því ekki að þurfa að útskýra fyrir þriðja aðila hvers vegna hann borgar þessi laun eða hin eða af hverju einhver fær hærri laun en annar.

Hann á fyrirtækið, ekki starfsmaðurinn, ríkið eða Jafnréttisstofa. Vinnuveitandinn er líka best fær um að meta framlag og afköst starfsmanna. Þar koma ótal þættir við sögu, flestir illmælanlegir. Því er það heldur ekki hlutverk ríkisins að meta hvort borga eigi starfsmanni í fullu starfi hlutfallslega meira eða minna en þeim sem er í hlutastarfi. Slíkt er einkamál vinnuveitanda.

Siðlaus lög

Vissulega var niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í þessu máli í samræmi við gildandi lög. Vandinn er hins vegar sá að þessi lög eru til óþurftar og í raun siðlaus. Þau færa embættismönnum óeðlileg völd sem ná langt út fyrir þeirra hlutverk og þekkingu og eru til þess fallin að valda fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra verulegu tjóni. Því ber að afnema þau við fyrsta tækifæri. Nógu þéttur er reglugerðarfrumskógurinn fyrir.

Höfundur er kennari




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×