Erlent

Trump lofar forstjórum skattalækkun og að koma Obamacare fyrir kattarnef

Heimir Már Pétursson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti vonar að John McCain öldungadeildarþingmaður jafni sig fljótt eftir að hann greindist með heilaæxli til að hann geti greitt atkvæði með frumvarpi sem komi heilbrigðislögum Obama fyrir kattarnef. Talið er að um tuttugu milljónir manna muni missa heilbrigðistryggingu sína nái frumvarp Trump fram að ganga.

John McCain öldungadeildarþingmaður Repúblikana og forsetaframbjóðandi gegn Barack Obama fyrrverandi forseta greindist með heilaæxli í vikunni og er því frá þingstörfum. Bandarískir þingmenn þurfa hins vegar ekki að óttast að fá ekki heilbrigðisþjónustu þar sem starfi þeirra fylgir besta heilbrigðistrygging sem völ er á í Bandaríkjunum.

Meirihluti Repúblikana í öldungadeildinni er naumur þar sem þeir hafa 52 fulltrúa af eitt hundrað. Nokkrir þingmenn hafa einnig gefið í skyn að þeir muni ekki styðja frumvarp Trump forseta um breytingar á lögum frá tíð Obama sem kölluð hafa verið Obamacare. Þeir óttast pólitískar afleiðingar verði frumvarpið að lögum en það gæti svift um 20 milljónir venjulegra Bandaríkjamanna heilbrigðistryggingu sinni.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna ítrekaði forgangsröð sína þegar forstjórar framleiðslufyrirtækja heimsóttu Hvíta húsið í dag.

„Við verðum að lækka skatta á fyrirtæki til að þjóð okkar geti blómstrað, eina hæstu skatta í heimi. Við verðum að afnema Obamacare sem drepur störf í landinu, við verðum að gera það. Og ég get sagt ykkur að við vonum að John McCain jafni sig mjög fljótlega vegna þess að við söknum hans. Hann er sterk rödd í Washington og við þurfum á atkvæði hans að halda,“ sagði Trump og uppskar að launum mikinn hlátur hjá forstjórunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×