Erlent

O.J. Simpson fær reynslulausn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
O.J. Simpson var ánægður með úrskurð nefndarinnar en hann verður líklega látinn laus í október.
O.J. Simpson var ánægður með úrskurð nefndarinnar en hann verður líklega látinn laus í október. Vísir/AFP
O.J. Simpson, sem dæmdur var í allt að 33 ára fangelsi árið 2008, hefur fengið reynslulausn. Úrskurður nefndar Nevada-ríkis um reynslulausnina var kveðinn upp í dag en gert er ráð fyrir að Simpson verði látinn laus í október næstkomandi.

Simpson hefur afplánað 9 ár af 33 ára dómi sem hann hlaut árið 2008 fyrir mannrán, vopnað rán og líkamsárás. Brotin voru framin á hótelherbergi í Las Vegas í Nevada-ríki í Bandaríkjunum.

Umsókn Simpson um reynslulausn vakti mikla athygli á dögunum en hann var kallaður fyrir reynslulausnarnefndina í dag. Í réttarsalnum baðst Simpson afsökunar á brotum sínum og sagðist vera fyrirmyndarfangi. Þá hét hann því að forðast átök, yrði honum slept lausum.

Þegar nefndin samþykkti reynslulausn hans í Lovelock-fangelsinu í Nevada sagði Simpson, sem nú er sjötugur, einfaldlega: „Takk fyrir!“

Árið 1995 var Simpson sýknaður af ákæru fyrir morðið á fyrrverandi eiginkonu sinni, Nicole Brown Simpson og vini hennar Ron Goldman. Réttarhöldin yfir Simpson á tíunda áratugnum eru ein þau frægustu í sögu Bandaríkjanna. Enn hefur enginn verið dæmdur fyrir morðin á Brow Simpson og Goldman.

Téð réttarhöld eru gjarnan kölluð „réttarhöld aldarinnar“ í fjölmiðlum vestanhafs og vöktu þau aftur mikla athygli á síðasta ári þegar sjónvarpsþættirnir American Crime Story: The People v. O.J. Simpson og heimildarmyndin O.J: Made in America, komu út og hlutu fjölda verðlauna.


Tengdar fréttir

O.J. Simpson sækir um reynslulausn

Fjórir meðlimir í nefnd Nevada ríkis um reynslulausn munu á fimmtudaginn taka ákvörðun um hvort fangi númer 1027820 skuli hljóta reynslulausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×