Fótbolti

Afríkukeppnin í fótbolta færð inn á sumarið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool missti Sadio Mane á mikilvægum tíma á síðasta tímabili af því hann var að spila fyrir Senegal í Afríkukeppninni.
Liverpool missti Sadio Mane á mikilvægum tíma á síðasta tímabili af því hann var að spila fyrir Senegal í Afríkukeppninni. Vísir/Getty
Næsta Afríkukeppni í fótbolta mun ekki trufla tímabil félagsliðanna í evrópska fótboltanum eins og síðustu áratugi.

Knattspyrnusamband Afríku hefur gefið það út að næsta Afríkukeppni, sem haldin verður í Kamerún árið 2019, mun fara fram í júní og júlí. BBC segir frá.

Afríkukeppnin hefur hingað til farið fram í janúar og febrúar sem hefur alltaf verið meira og meira vandamál eftir að afrískum leikmönnum hefur fjölgað í bestu deildum Evrópu.

Evrópsku félögin hafa misst sterka leikmenn á mikilvægum tíma á tímabilinu en þurfa ekki að hafa lengur áhyggjur af því.

Þetta verður ekki eina breytingin á keppninni því þáttökuþjóðum í úrslitakeppninni verður fjölgað úr 16 í 24. Afríkukeppnin hefur verið með sextán lið frá árinu 1996.

Afríkukeppnin er haldin á tveggja ára fresti og verður það áfram.

Knattspyrnusamband Afríku var einnig að íhuga það að taka leyfa gestaþjóðum að koma inn í keppnina en það var hinsvegar ákveðið að keppnin yrði áfram aðeins fyrir Afríkuþjóðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×