Erlent

Lokanir á „myrkranetsmörkuðum“ marka þáttaskil

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myrkranetsíðunum AlphaBay og Hansa hefur verið lokað.
Myrkranetsíðunum AlphaBay og Hansa hefur verið lokað. Vísir/Getty
Tveimur stærstu myrkranetsmarkaðstorgum í heimi, þar sem ólöglegur varningur gekk kaupum og sölum, hefur verið lokað vegna alþjóðlegrar rannsóknar á starfsemi þeirra. BBC gerði ítarlega úttekt á málinu.

Varningur á borð við eiturlyf, vopn, spilliforrit (e. malware) og stolin gögn var til sölu á myrkranetssíðunum AlphaBay og Hansa, sem lokað var í kjölfar samhæfðra aðgerða lögregluyfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum.

Myrkranetið svokallaða, eða „dark web,“ samanstendur af vefsíðum og öðru efni á Internetinu sem aðeins er hægt að nálgast með sérstökum hugbúnaði, heimildum eða stillingum. Áðurnefndar vefsíður, AlphaBay og Hansa, tilheyrðu þessum flokki en vegna þess hversu erfitt er að nálgast efni á myrkranetinu hafa einhverjir hlutar þess orðið vettvangur glæpastarfsemi.

Um að ræða tvær lokanir

AlphaBay var lokað í byrjun þessa mánaðar en í kjölfarið jókst notendafjöldi Hansa, hinnar síðunnar sem lokað var. Sú síða hafði þó verið undir leynilegu eftirliti hollensku lögreglunnar síðan í lok júní síðastliðnum en henni var lokað nú fyrir skömmu, þegar eftirlitið hafði staðið yfir í um mánuð.

Samhæfðar aðgerðir Bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), Bandarísku fíkniefnalögreglunnar (DEA) og hollensku lögreglunnar leiddu til lokananna, auk þess sem tveir menn voru handteknir í Þýskalandi í tengslum við rekstur Hansa. Þá var lagt hald á netþjóna í Þýskalandi, Hollandi og Litháen.

Þessar aðgerðir eru taldar hafa markað þáttaskil í rannsóknum á glæpastarfsemi á myrkranetinu.

Viðskiptin sögð hafa leitt til dauðsfalla

Þá rekja yfirvöld í Bandaríkjunum nokkur dauðsföll bandarískra ríkisborgara til viðskipta á téðum myrkranetsmarkaðstorgunum.

„Við vitum til þess að fjölmargir Bandaríkjamenn hafa látið lífið vegna eiturlyfja sem þeir keyptu á AlphaBay,“ sagði dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Jeff Sessions.

Hann nefndi sérstaklega 18 ára stúlku og 13 ára dreng sem létust bæði eftir að þau innbyrtu of stóra skammta af eiturlyfjum sem keypt voru á AlphaBay. Þá er vitað til þess að heróín og fentanýl, eiturlyf sem dregið hafa fjölda fólks til dauða, hafi verið til sölu á síðunni.

„Þið getið ekki falið ykkur. Við munum finna ykkur,“ sagði Sessions og beindi ummælum sínum til glæpamanna sem stunda ólögleg viðskipti á myrkranetinu.

Meintur stjórnandi fannst látinn í fangelsi í Taílandi

Einn af meintum stjórnendum AlphaBay, Kanadamaðurinn Alexandre Cazes, var handtekinn í Taílandi 5. júlí síðastliðinn en aðgerðir vegna síðanna hafa verið afar umfangsmiklar. Við handtökuna lagði lögregla hald á margar milljónir Bandaríkjadala, bundnar í ýmsum eignum, þrjár fasteignir og fjórar bifreiðar af tegundinni Lamborghini.

Cazes fannst látinn í klefa sínum í fangelsi í Bangkok, höfuðborg Taílands, nokkru síðar. Talið er að hann hafi framið sjálfsmorð.

Árið 2013 var sambærilegu myrkranetsmarkaðstorgi, Silk Road, lokað. Aðrar og stærri síður leystu Silk Road fljótlega af hólmi, þar á meðal AlphaBay, en ljóst þykir að stjórnvöld þurfi nú að einblína á stór og margbrotin net glæpasamtaka, sem standa að stofnun markaðstorganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×