Erlent

Bandaríkjastjórn bannar heimsóknir til Norður-Kóreu

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Bandaríkjunum munu banna bandarískum ríkisborgurum að ferðast til Norður-Kóreu. Þetta er haft eftir forsvarsmönnum tveggja ferðaskrifstofa sem skipuleggja ferðir til landsins.

Ferðaskrifstofurnar – Koryo Tours og Young Pioneer Tours – segja bannið verða kynnt 27. júlí næstkomandi og taka gildi þrjátíu dögum síðar.

Í frétt BBC kemur fram að Bandaríkjastjórn hafi enn ekki tjáð sig um málið.

Young Pioneer Tours starfar í Kína og hefur greint frá því að ferðir verða ekki seldar bandarískum ferðamönnum. „Okkur hefur nýverið gert kunnugt að Bandaríkjastjórn muni ekki heimila Bandaríkjamönnum að ferðast til Norður-Kóreu,“ segir í yfirlýsingu.

Young Pioneer Tours var ferðaskrifstofan sem skipulagði ferð bandaríska námsmannsins Otto Warmbier til Norður-Kóreu á síðasta ári. Hann var þar handtekinn og dæmdur til fimmtán ára fangelsisvistar. Hann var í dái þegar honum var sleppt í síðasta mánuði og lést í Bandaríkjunum nokkrum dögum síðar.

Þrír bandarískir ríkisborgarar eru nú í haldi í Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Otto Warmbier er látinn

Bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier, sem var sleppt úr haldi norður-kóreskra stjórnvalda í síðustu viku, eftir að hafa verið dæmdur í fimmtán ára nauðungarvinnu, er látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×