Innlent

Eldsvoðinn á Stokkseyri: Lögreglan á Suðurlandi útilokar ekkert

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Eldsupptök eru ekki ljós að svo stöddu.
Eldsupptök eru ekki ljós að svo stöddu. Brunarvarnir Árnessýslu
Lögreglan á Suðurlandi segist ekki útiloka neitt varðandi eldsvoðann á Stokkseyri.

„Við erum opnir fyrir öllum möguleikum og útilokum ekkert og lokum ekki á neitt,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, aðspurður um næstu skref. Eldsupptök eru ekki ljós.

Lögreglan á Suðurlandi óskaði í vikunni eftir upplýsingum um mannaferðir á svæðinu þegar bruninn átti sér stað. Engar upplýsingar hafa þó borist.

Þorgrímur segir í samtali við Vísi að enginn liggi undir grun eins og er. Þeir eru að rannsaka svæðið og styðjast meðal annars við efni úr eftirlitsmyndavélum. Búið er að yfirheyra manninn sem kom að svæðinu. Þá hefur lögreglan einnig heyrt í Andreu Kristínu Unnarsdóttur, íbúa hússins, sem komst lífs af úr brunanum. Ekki sé hins vegar hægt að gefa upplýsingar um það hvenær formleg skýrsla verður tekin af henni.

„Það er búið að tala við þann sem kom þarna fyrstur að og svo erum við að fara að huga að íbúanum sem hefur verið á sjúkrahúsi,“ segir Þorgrímur.

Lögreglan er enn að bíða eftir formlegum niðurstöðum úr sýnatöku frá Tæknideildinni. Þorgrímur segist ekki bjartsýnn um að fá niðurstöðurnar í hendurnar fyrir helgi. Boltinn sé í höndum tæknideildarinnar í bili og lítið sé hægt að gera á meðan niðurstöður liggja ekki fyrir.

„Við bíðum bara eftir niðurstöðunum til að geta tekið stefnuna,“ segir Þorgrímur. 


Tengdar fréttir

Eldur í einbýlishúsi á Stokkseyri

Íbúi hússins komst út af sjálfsdáðum og var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Landsspítalann í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×