Innlent

Talið að fanginn hafi klifrað yfir tveggja metra háa girðingu

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Guðmundur segir í samtali við Vísi að fanginn hafi örugglega átt fullt í fangi með að fela sig þann tíma sem hann var í burtu frá fangelsinu. Þá hafi þetta ekki atvikast eins og í bandarískri bíómynd þar sem fangar grafa sér göng í gegnum fangelsisveggina.
Guðmundur segir í samtali við Vísi að fanginn hafi örugglega átt fullt í fangi með að fela sig þann tíma sem hann var í burtu frá fangelsinu. Þá hafi þetta ekki atvikast eins og í bandarískri bíómynd þar sem fangar grafa sér göng í gegnum fangelsisveggina. Vísir/Stefán
Fanginn sem strauk úr fangelsinu á Akureyri í gærdag hafði verið að aðstoða við garðvinnu út á lóðinni sem tilheyrir lögreglustöðinni á Akureyri þegar hann greip tækifærið og lét sig hverfa. Lögreglustöðin er samtengd við fangelsið.

Fangavörður leit af honum í smá stund og á þeim tíma er talið að honum hafi tekist að klifra eða hoppa yfir um það bil tveggja metra háa girðingu sem umkringir garðinn. Maðurinn var í burtu frá hálf fimm til tæplega ellefu um kvöld.

Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins á Akureyri, segir í samtali við Vísi að girðingin sé ekki mannheld. Þá sé engum hættulegum fanga leyft að fara út á þetta svæði.

Einangrun líklega beitt

Fanginn á mögulega yfir höfði sér einangrun, sem er einn hlut af agaviðurlögum sem beitt er þegar fangar brjóta reglur.

„Samkvæmt lögum þarf að ákvarða honum agaviðurlög sem venjulega  er einangrun þegar um strok er að ræða,“ segir Guðmundur. Þá mun þetta einnig hafa áhrif á hans möguleika í afplánun, hann muni ekki geta fengið dagsleyfi í ákveðinn tíma. Þá gæti þetta einnig haft áhrif á möguleika hans á reynslulausn.

Guðmundur segir að maðurinn hafi ekki átt langan tíma í afplánun eftir.

Einbeitti sér að því að fela sig

Ekki er búið að yfirheyra fangann eftir þetta. Aðspurður hvað hann hafi verið að gera á meðan hann var á flótta segir Guðmundur að hann hafi líklegast verið að einbeita sér að því að fela sig. Þau hafi síðan fengið ábendingu um það hvar hann væri og var hann handtekinn fyrir framan kvikmyndahúsið á Akureyri.

Guðmundur segir að verið sé að endurskoða ferla hjá fangelsinu eftir atvikið. Hann nefnir að atvik sem þetta sé alls ekki algengt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×