Körfubolti

Þurfa að skuldbinda sig til 30 ára til að fá ársmiða hjá Golden State

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er gaman að vera stuðningsmaður  Golden State Warriors í dag.
Það er gaman að vera stuðningsmaður Golden State Warriors í dag. Vísir/Getty
NBA-meistarar Golden State Warriors eru að byggja nýja íþróttahöll og forráðamenn félagsins ætla þar að bjóða upp á nýtt fyrirkomulag fyrir ársmiðahafa sína.

Nýja höllin hefur þegar fengið nafnið Chase Center og hún er í San Francisco en ekki í Oakland þar sem núverandi heimahöll liðsins, Oracle Arena, er staðsett.

Bandarískir fjölmiðlar segja frá því að Golden State Warriors ætli að fækka ársmiðahöfum sínum úr 14.500 niður í 12.00 í nýju höllinni. Það verður því hart barist um miðanna enda framtíðin björt hjá hinu sterka liði Golden State Warriors.

Af þessum tólf þúsund ársmiðum mun helmingurinn kosta 15 þúsund dollara eða minna sem er ein og hálf milljón íslenskra króna eða minna. Hinn helmingurinn af ársmiðunum verður síðan miklu dýrari enda væntanlega bestu sætin í húsinu.

Þetta er svo sem ekki óeðlilegt við þetta en það sem hefur vakið athygli er að fólk sem kaupir sér ársmiða í nýju höllinni þarf að skuldbinda sig til 30 ára.

Það gerir það með því að greiða aukalega sérstakt meðlimagjald sem mun í raun vera lán til félagsins. Ársmiðahafarnir fá síðan þessa upphæð endurgreidda eftir 30 ár.

Það mun kosta um einn milljarð dollara að byggja Chase Center sem mun væntanlega opna árið 2019 en stjórnvöld eða borgayfirvöld komu ekkert nálægt fjármögnuninni heldur er höllin fjármögnuð af einkaaðilum. Meðlimagjaldið frá ársmiðahöfunum er því nauðsynleg fyrir félagið til að komast í gegnum þessi risastóru útgjöld sem bíða.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×