Handbolti

Einn besti leikmaður Hauka frá í marga mánuði vegna veikinda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Haukur Baumruk
Adam Haukur Baumruk Vísir/Eyþór
Karlalið Hauka hefur orðið fyrir miklu áfalli því einn besti leikmaður liðsins verður frá keppni stóran hluta komandi tímabils í Olís-deild karla í handbolta vegna veikinda.

Adam Haukur Baumruk greindist með einkirningasótt og gæti verið frá næstu fjóra til sex mánuði vegna þessara veikinda sem leggjast oft mjög þungt á fólk.

Adam Haukur er ein helsta skytta Haukaliðsins og einnig gríðarlega mikilvægur í vörn liðsins. Hann skoraði 133 mörk í 27 leikjum í deildarkeppninni á síðustu leiktíð og var markahæsti leikmaður Haukaliðsins.

„Hann verður frá í óákveðinn tíma,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Haukanna, en hann staðfesti veikindi Adams í samtali við Vísi. „Þetta er mikið áfall fyrir hann sjálfan,“ sagði Gunnar.

Gunnar segir að Haukar séu ekki búnir að ákveða hvort þeir bregðist sérstaklega við þessu en að liðið mátti ekki við miklu.

„Við lögðum upp með þunnan hóp og við þurfum nú að skoða hvað við gerum til að bregðast við þessu,“ sagði Gunnar.

Það er óvíst hversu Adam Haukur verður lengi að ná sér góðum en svo mun það líka taka hann tíma að byggja sig aftur upp eftir veikindin til að ná fyrri styrk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×