Fótbolti

Fanndís: Sofnum tvisvar á verðinum og þær refsa í bæði skiptin

„Fyrst og fremst er maður bara ótrúlega svekktur, þetta var hrikalega pirrandi. Við lögðum þennan leik vel upp en við sofnum tvisvar á verðinum og þær refsuðu okkur,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, svekkt eftir 1-2 tap gegn Sviss í viðtali við Tómas Þór Þórðarson, blaðamann Vísis í Hollandi.

Fanndís var skiljanlega sátt með markið sem hún skoraði sem kom eftir frábæra skyndisókn.

„Þetta var eins og við lögðum upp með og höfum æft, við vissum að þær væru hægar til baka en það er bara hrikalega svekkjandi að það telji ekki neitt þegar uppi er staðið.“

Ellefu mínútna uppbótartími var í Hollandi í dag en leikurinn var ítrekað stoppaður í seinni hálfleik.

„Hann stoppaði oft leikinn á glórulausum tíma í staðin fyrir að leyfa leiknum að halda áfram og fá flæði í leikinn. Við hefðum átt að vera rólegri heilt yfir á bolta og gera betur,“ sagði Fanndís og bætti við:

„Við héldum allan tíman haus og héldum áfram að reyna en þetta var bara einn af þessum dögum þar sem boltinn fór ekki inn. Fyrst og fremst er ég bara ótrúlega svekkt eftir þennan leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×