Erlent

Rússneski sendiherrann yfirgefur Washington

Atli Ísleifsson skrifar
Sergei Kislyak tók við embætti sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum árið 2008.
Sergei Kislyak tók við embætti sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum árið 2008. Vísir/Getty
Sergei Kislyak hefur nú lokið starfi sínu sem sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum eftir tæplega áratuga starf.

Kislyak hefur verið mikið í umræðunni á árinu vegna tengsla ráðgjafa Donald Trump Bandaríkjaforseta og fulltrúa rússneskra stjórnvalda. Umræða um Rússatengslin hafa verið mjög áberandi á fyrstu sex mánuðum forsetatíðar Trump.

Kislyak tók við embætti sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum árið 2008 og er búist við að aðstoðarutanríkisráðherrann Anatoli Antonov taki við af honum. Rússneska þingið á þó enn eftir að staðfesta skipun Antonov.

Fáeinum vikum eftir embættistöku Trump þurfti þjóðaröryggisráðgjafinn Michael Flynn að segja af sér eftir að hann hafði logið til um samskipti sín við Kislyak.

Dómsmálaráðherrann og fyrrverandi öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Sessions átti sömuleiðis fundi með Kislyak og ákvað hann í vor að segja sig frá rannsókn á aðkomu Rússa að forsetakosningunum.

Þá fundaði einnig Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Trump, með Kislyak fyrir valdaskiptin í Washington í janúar.

Rússnesk stjórnvöld hafa neitað að hafa átt afskipti af bandarísku forsetakosningunum.


Tengdar fréttir

Trump reiður dómsmálaráðherra sínum

Segist sjá eftir því að hafa skipað Jeff Sessions í embætti eftir að hann sagði sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum.

Spurt og svarað um samskipti Flynn og Rússa

Þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta sagði af sér fyrr í vikunni vegna samskipta sinna við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×