Erlent

Samkynhneigðum karlmönnum heimilt að gefa blóð þremur mánuðum eftir að hafa stundað kynlíf

Atli Ísleifsson skrifar
Bresk stjórnvöld bönnuðu samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð þegar alnæmisfaraldurinn stóð sem hæst.
Bresk stjórnvöld bönnuðu samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð þegar alnæmisfaraldurinn stóð sem hæst. Vísir/Getty
Samkynhneigðum karlmönnum í Bretlandi verður heimilt að gefa blóð þremur mánuðum eftir að hafa stundað kynlíf. Þetta er liður í fyrirhuguðum lagabreytingartillögum bresku ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála.

Bresk stjórnvöld bönnuðu samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð þegar alnæmisfaraldurinn stóð sem hæst, en árið 2011 var lögunum breytt þannig að þeir mættu gefa blóð tólf mánuðum eftir að hafa síðast stundað kynlíf. Samkvæmt tillögum Bretlandsstjórnar verður sá tími styttur í þrjá mánuði á næsta ári, vegna framfara á sviði læknisfræði.

Sky News segir frá því að samkvæmt tillögunum verði transfólki heimilt að velja kyn sitt, eins og það er skráð hjá hinu opinbera, án þess að þurfa að leggja fram skýrslu læknis.

Justine Greening, ráðherra menntamála í Bretlandi, kynnti tillögurnar í dag og sagði þær byggja á þeim framförum sem hafi náðst til að draga úr fordómum í samfélaginu á síðustu fimmtíu árum, eða frá afglæpavæðingu samkynhneigðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×