Erlent

Ógnaröld í Ríó

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Í kringum níutíu lögreglumenn hafa fallið í átökum við glæpagengi.
Í kringum níutíu lögreglumenn hafa fallið í átökum við glæpagengi. Vísir/AFP
Á fimmtíu og fjögurra klukkustunda fresti er lögregluþjónn myrtur í Rio de Janeiro. Vinir og ættingjar lögreglumanna í Rio de Janeiro fjölmenntu í mótmælagöngu eftir að enn einn lögreglumaðurinn lét lífið í átökum við glæpagengi. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Hundruð gengu fylktu liði meðfram Copacabana-ströndinni og kröfðust aukins stuðnings til handa lögreglunni og almenningi.

Níutíu lögreglumenn hafa látist í átökum við glæpagengi í Rio de Janeiro það sem af er árinu. Það er mun meira en heildarfjöldi látinna lögreglumanna árið 2016.

„Ég er full örvæntingar því eiginmaðurinn minn gæti orðið næstur,“ segir Rogeria Quaresma sem tók þátt í kröfugöngunni. Hún bætir auk þess við að það sé daglegt brauð að fjölskyldur leysist upp. Quaresma segist ekki taka það í mál að verða næsta ekkja.

Í síðustu viku tilkynntu brasilísk yfirvöld að þau myndu senda þúsund ríkislögreglumenn til þess að styrkja staðbundna löggæslu í Rio de Janeiro.

Fjölskyldur og vinir lögreglumanna segja að lögreglumenn í landinu skorti bæði heimildir og búnað til að stemma stigu við glæpaöldunni. Þá er þess einnig krafist að breytingar verði gerðar á almennum hegningarlögum. Þess er óskað að refsingin fyrir lögreglumorð verði þyngd.

Í skýrslu frá Amnesty International er komið á framfæri áhyggjum af tíðni dauðsfalla í aðgerðum lögreglunnar. Meira en átta hundruð manns voru drepnir í Rio de Janeiro árið 2016.

Fjölskyldur lögreglumanna í Brasilíu fjölmenntu í mótmælagöngu.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×