Fótbolti

Manchester United sigraði Real Madrid í vítakeppni

Elías Orri Njarðarson skrifar
Casemiro að jafna metin í leiknum úr vítaspyrnu.
Casemiro að jafna metin í leiknum úr vítaspyrnu. visir/getty
Manchester United og Real Madrid mættust í kvöld í Meistarabikarnum í fótbolta á Levis-stadium í Kaliforníu.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Jesse Lindgard kom Manchester United yfir með fínu marki eftir frábært hlaup hjá Anthony Martial, sem tók á þrjá leikmenn Real Madrid og labbaði framhjá þeim og lagði boltann fyrir markið á Lingard sem gat ekki annað en skorað.

United fór því með forskotið inn í seinni hálfleikinn.

Victor Lindelöf, sem kom til United frá Benfica nú í sumar, gerði sig sekan um slæm mistök er hann braut á Theo Hernandez inn í vítateig United á 68. mínútu leiksins. Skelfilegur varnarleikur hjá sænska varnarmanninum.

Casemiro tók vítið fyrir Real Madrid og skoraði af miklu öryggi og jafnaði því metin, 1-1.

Hvorugt liðanna náði að bæta við marki í venjulegum leiktíma þrátt fyrir góð tækifæri til þess og því var farið í vítaspyrnukeppni.

Anthony Martial fór fyrstur á punktinn hjá United og skaut himinhátt yfir markið. Mateo Kovacic kom á eftir honum fyrir Real Madrid en hann lét David de Gea verja frá sér. Ekki góð byrjun á vítakeppni.

Kiko Casilla varði svo aðra spyrnu United í leiknum og Oscar Rodriguez klúðraði annari spyrnu Madrid þegar að de Gea varði aftur.

Henrikh Mkhitaryan skoraði svo úr þriðju spyrnu United í leiknum og Luis Miguel Quezada jafnaði metin úr þriðju spyrnu Madrid.

Victor Lindelöf tók fjórða víti United og hans spyrna var skelfileg en Kiko Casilla átti í engum vandræðum með að verja hana. Theo Rodriguez klúðraði svo fjórðu spyrnu Madrid.

Daley Blind tók fimmtu spyrnu United og skoraði úr henni. Casemiro sem skoraði úr vítaspyrnu í leiknum var næstur á punktinn fyrir Real Madrid en honum brást bogalistinn er spyrnan hans hafnaði í slánni. 

Manchester United vann þessa vægast sagt skelfilegu vítakeppni 2-1. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×