Handbolti

Skelfilegur fyrri hálfleikur varð strákunum að falli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. Vísir/Getty
Ísland tapaði í dag sínum fyrsta leik á HM U-21 liða sem nú fer fram í Alsír. Ungu strákarnir okkar töpuðu þá fyrir sterku liði Króatíu, 29-26. Fyrir vikið missti Ísland toppsætið í D-riðli og hafnaði í öðru sætinu en riðlakeppni mótsins lýkur í dag.

Mestu munaði um slæman fyrri hálfleik þar sem Ísland réði ekki við varnarleik Króatíu og lenti tíu mörkum undir, 16-6. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 17-8.

Allt annað var að sjá til strákanna í síðari hálfleik og náðu þeir að saxa á forystu Króatanna hægt og rólega.

Munurinn var aðeins þrjú mörk, 28-25, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir og fengu okkar menn tækifæri að minnka muninn í tvö mörk þegar tvær mínútur voru eftir en Ómar Ingi Magnússon skaut þá í stöng.

Óðinn Þór Ríkharðsson náði þó að gera það með marki úr hraðaupphlaupi þegar ein mínúta og tíu sekúndur voru eftir en það var of seint. Króatar skoruðu úr sinni sókn og tryggðu sér endanlega sigur.

Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss, var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk og Óðinn Þór kom næstur með fimm. Markvarsla íslenska liðsins brást í leiknum en Einar Baldvin Baldvinsson varði þrjú skot í dag en þeir Grétar Ari Guðjónsson og Viktor Gísli Hallgrímsson ekkert. Allir þrír komu við sögu í leiknum.

Ísland endaði þar með í öðru sæti D-riðils en jafntefli hefði í dag dugað til að tryggja sigur í riðlinum. Líklegt er að andstæðingur Íslands í 16-liða úrslitum á miðvikudag verði Túnis, Makedónía eða Brasilía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×