Innlent

Ákærður fyrir að lama öll fjarskipti í rúman sólarhring

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Arnarfjörður á Vestfjörðum.
Arnarfjörður á Vestfjörðum. Fréttablaðið/Jón Sigurður
Maður hefur verið ákærður fyrir almannahættubrot og stórfelld eignaspjöll en honum er gefið að sök að hafa slitið rafstreng í Arnarfirði á Vestfjörðum með þeim afleiðingum að öll fjarskiptaþjónusta við skip í nágrenninu lá niðri í rúman sólarhring.

Sakamál yfir manninum verður höfðað fyrir Héraðsdómi Vestfjarða en í ákæru yfir honum kemur fram að brotin hafi verið framin að morgni sunnudagsins 16. nóvember 2014. Maðurinn var við rækjuveiðar í Arnarfirði og „togaði þar með toghlerum og rækutrolli þvert yfir rafstreng sem lá neðansjávar yfir Arnarfjörð innanverðan.“

Þannig á maðurinn að hafa slitið og skemmt rafstrenginn með þeim afleiðingum að rafmagn fór af fjarskiptamastri á Laugabólsfjalli sem varð til þess að öll fjarskiptaþjónusta við skip á þjónustusvæði mastursins lá niðri.

Bæði fjarskiptakerfi Vaktstöðva siglinga, þar með talin neyðar- og öruggisfjarskiptakerfi, og Tetra öryggisfjarskiptakerfi lágu niðri í rúman sólarhring. Þá lá GSM-farsímasamband einnig niðri í rúman sólahring en öllum fjarskiptum var komið á klukkan 19:34 að kvöldi 17. nóvember 2014.

Í ákærunni segir að með háttsemi sinni hafi ákærði „raskað öryggi skipa á umræddu svæði sem er á alfaraleið.“ Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×