Innlent

Þúsundir landsmanna fengu símhringingu úr óþekktu númeri: „Þetta er ekkert annað en glæpastarfsemi“

Gissur Sigurðsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Mestu skiptir að hringja ekki til baka í númerið.
Mestu skiptir að hringja ekki til baka í númerið. vísir/getty
Hrafnkell Gíslason, forstöðumaður Póst-og fjarskiptastofnunar, segir að torkennilegar símhringingar sem þúsundir landsmanna fengu í gær frá erlendu símanúmeri séu ekkert annað en glæpastarfsemi.

Um símasvindl er að ræða þar sem viðkomandi getur fengið himinháan símreikning hringi hann til baka en með þessum hætti hafa svindlararnir fé út úr fólki. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varaði almenning við því í gær að svara þessum símtölum eða hringja til baka.

En hver ætli ávinningur hringjendanna hafi verið?

 „Ávinningurinn getur verið sá að þegar hringt er til baka þá náttúrulega færast gjöld á þann sem hringir og ef til dæmis er hringt í símanúmer með yfirgjaldi eins og til dæmis Rauða torgið á Íslandi, það er auðvelt að setja upp slík númer, þá getur kostnaðurinn verið umtalsverður. Svo skiptir líka máli til hvaða lands er hringt, það eru mjög kostnaðarsöm millilandasímtöl til ýmissa landa þannig að það getur verið verulegur kostnaður við slík símtöl,“ segir Hrafnkell.

Hann segir öllu máli skipta að hringja ekki til baka en bendir á að svona svindl í gegnum almenna fjarskiptakerfið sé alls ekkert nýtt heldur hafi það verið verið við lýði í fjölda ára.

„Þetta er ekkert annað en glæpastarfsemi og er af sama toga og gagnagíslatökuárásir og fleira – glæpamenn eru einfaldlega að gera út á það að fólk bregðist rangt við eða bregðist ekki við eftir atvikum og ná sér í pening í gegnum slíkt athæfi.“

Símtölin stóðu aðeins andartak, en númerið sat eftir í hringilista viðkomandi og er fréttastofu kunnugt um að margir hafi hringt til baka og  geta þeir nú búist við háaum símareikningum.

Fréttastofunni er til dæmis kunnugt um tvö þúsund króna gjald fyrir örstutta hringingu til baka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×