Erlent

Foreldrar Charlie Gard hætta baráttu sinni fyrir dómstólum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjölmargir hafa stutt foreldra Charlie í baráttu þeirra. Hér eru tveir af stuðningsmönnum foreldranna með mynd af Charlie litla á milli sín.
Fjölmargir hafa stutt foreldra Charlie í baráttu þeirra. Hér eru tveir af stuðningsmönnum foreldranna með mynd af Charlie litla á milli sín. vísir/getty
Foreldrar Charlie Gard, bresks 11 mánaða drengs sem þjáist af afar sjaldgæfum og banvænum sjúkdómi, tilkynntu í dag að þau séu hætt baráttu sinni fyrir lífi drengsins fyrir dómstólum.

Á morgun stóð til að dómari við yfirrétt myndi úrskurða hvort foreldrunum yrði leyft að fara með Charlie til Bandaríkjanna í tilraunameðferð en lögmaður foreldranna tilkynnti dómaranum um ákvörðun þeirra í dag.

Hún er tekin í kjölfar þess að læknirinn sem hugðist taka Charlie í tilraunameðferð kvaðst ekki lengur geta gert það þar sem niðurstöður úr segulómun leiddu í ljós að meðferðin myndi ekki bæta líðan barnsins.

„Versta martröð foreldranna hefur nú orðið að veruleika,“ sagði lögmaður þeirra í dag. Enskur dómstóll hafði áður úrskurðað að læknar mættu taka Charlie úr öndunarvélinni sem heldur honum á lífi og má því búast við að það verði gert á næstu dögum.

Sjúkdómurinn sem Charlie þjáist af kallast mergmisþroski og hamlar þroska hans. Læknar hans segja hann heilaskaddaðan, hann sé blindur og heyrnarlaus og hann geti hvorki kyngt né grátið.

Foreldrar höfðu safnað 1,3 milljónum punda fyrir ferðinni til Bandaríkjanna og meðferðinni en nú þegar ljóst er að ekkert verður af því hyggjast þau stofna góðgerðarsamtök til minningar um Charlie.


Tengdar fréttir

Skoða ábendingar um meðferð fyrir dauðvona dreng

Hópur lækna hefur sent sjúkrahúsinu sem annast Charlie Gard, tíu mánaða breskan dreng sem bíður dauðans af völdum sjaldgæfs sjúkdóms, ábendingar um mögulegan ávinning tilraunameðferðar. Sjúkrahúsið hefur óskað eftir að dómstóll taki mál hans fyrir aftur.

Ekki hægt að flytja dauðvona dreng í Páfagarð

Utanríkisráðherra Bretlands segir best að fela sérfræðingum og dómstólum að taka ákvarðanir um örlög dauðvona drengs. Sjúkrahús Páfagarðs hafði boðist til að taka við drengnum og halda meðferð áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×