Erlent

Hneyksli vegna ríkisleyndarmála skekur sænsku ríkisstjórnina

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá blaðamannafundinum þar sem Stefan Löfven og yfirmenn samgöngustofnunarinnar, öryggislögreglunnar og hersins svöruðu fyrir hneykslið.
Frá blaðamannafundinum þar sem Stefan Löfven og yfirmenn samgöngustofnunarinnar, öryggislögreglunnar og hersins svöruðu fyrir hneykslið. Vísir/EPA
Mistök og vanræksla við útvistun tölvuþjónustu sænska ríkisins hefur dregið dilk á eftir sér og gæti jafnvel ógnað stöðu nokkurra ráðherra í ríkisstjórn Stefans Löfven forsætisráðherra. Stjórnarandstaðan hótar að leggja fram vantrauststillögu.

Forsaga málsins er sú að samgöngustofnun Svíþjóðar bauð út rekstur á tölvukerfi sínu en vanrækti að gæta öryggis gagnanna. Afleiðing var sú að starfsmenn tékknesks tölvufyrirtækis sem ekki höfðu öryggisheimild gátu skoðað persónugreinanleg gögn.

Á meðal gagnanna voru upplýsingar um alla þá sem eru með ökuskírteini í Svíþjóð með nöfnum þeirra, fæðingardegi og myndum. Sænskir fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að nöfn hermanna og upplýsingar um herökutæki og varnaráætlanir gætu verið í tölvukerfi samgöngustofnunarinar.

Þannig hafi heimilisföng orrustuflugmanna í sænska flughernum og gagnagrunnar með sakaskrám fólks verið aðgengilegir austur-evrópskum tölvunarfræðingum.

Löfven ver ráðherra sína

Miðvinstristjórn Löfven er undir miklum þrýstingi vegna málsins en fjölmiðlar og almenningur hefur krafist þess að vita hvaða ráðherrar vissu um málið og hvenær þeir fengu vitneskju um það.

Löfven sagði á blaðamannafundi í dag að hann hefði fengið upplýsingarnar um málið í janúar. Þrátt fyrir að tveir ráðherrar í ríkisstjórninni hafi vitað af því í ár þá beri hann enn traust til allrar ríkisstjórnarinnar að svo komnu máli.

„Við höfum dregið úr skaðanum og bætt úr mistökunum,“ sagði Löfven sem sagðist fagna því að sænska þingið rannsakaði málið. Hann gerði þó lítið úr boðuðu vantrausti stjórnarandstöðunnar, að því er segir í frétt sænska ríkisútvarpsins SVT.

Financial Times segir að það sé til marks um hversu alvarlegt málið sé að yfirmaður sænsku öryggislögreglunnar, yfirherfshöfðingi sænska hersins og nýr yfirmaður samgöngustofnunarinnar hafi verið viðstaddir blaðamannafundinn.

Maria Ågren, fyrrverandi yfirmaður samgöngustofnunarinnar, var rekin í janúar en ástæður uppsagnarinnar voru ekki gefnar upp á sínum tíma. Hún var sektuð um 70.000 sænskar krónur fyrir kæruleysi í meðferð leynilegra upplýsinga í síðasta mánuði.

Ríkisstjórnin hefur lofað rannsókn á því þegar rekstur tölvukerfis samgöngustofnunarinnar var boðinn út til IBM árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×