Innlent

Veiddi stórlax í Aðaldal rúmlega níræð að aldri

Jakob Bjarnar skrifar
Lilla er grjótharður veiðimaður að sögn Bubba Morthens, og merkileg kona en ýmsa helstu drætti 20. aldarinnar má lesa í lífshlaup hennar.
Lilla er grjótharður veiðimaður að sögn Bubba Morthens, og merkileg kona en ýmsa helstu drætti 20. aldarinnar má lesa í lífshlaup hennar.
„Ég vil frekar veiða einn stóran en marga litla,“ segir Lilla Rowcliffe í samtali við blaðamann Vísis.

Lilla Rowcliffe er á 92. aldursári sínu og hefur verið við veiðar í Laxá í Aðaldal, Nessvæðinu, undanfarna daga. Hún er nú á heimleið en Lilla hefur veitt í Aðaldalnum undanfarin tæp þrjátíu árin eða svo. Hún segist upphaflega hafa komið hingað sem gestur í fylgd vinar síns. Þau fóru þá í Hofsá.

Seinna kom hún svo í Aðaldalinn og segist taka Laxá í Aðaldal fram yfir flestar aðrar laxveiðiár.

„Hún er algerlega einstök,“ segir Lilla. En, hún er nú með barnabarn sitt með sér og segir það sérstaklega ánægjulegt að kynna Ísland fyrir því.

Laxveiðin með ólíkindum í fyrra

Vegna sérstakra aðstæðna í ánni, eins og nánar verður komið að hér á eftir, setti Lilla Rowcliffe ekki í marga fiska núna. Hún landaði einum 90 sentímetra en setti í tvo aðra. Annað var uppi á teningnum í fyrra þegar hún dró 15 stórlaxa á land. Hún segist aldrei hafa veitt eins marga laxa á eins stuttum tíma og þá. Stórlaxaárið á Íslandi í fyrra var sannarlega ótrúlegt.

Lilla með lax á og heldur öruggum höndum um tvíhenduna og hjólið, sem er bremsulaust.
„Ég kem örugglega aftur að ári. Hér er alltaf jafn stórkostlegt að dvelja við veiðar,“ segir Lilla. „Og maður veit aldrei þegar veiðar eru annars vegar hvernig árar. Kannski lendi ég í eins mikilli veiði þá og í fyrra. Nú var hins vegar vatnið hlýrra en loftið.“

En, mikil hlýindi hafa verið á Norðausturlandi undanfarna daga og þó flestir þar um slóðir fagni því þá er það ekki ákjósanlegt veiðiveður.

Heldur í beltið svo hún berist ekki út með straumnum

Lilla Rowcliffe er með þekktari laxveiðikonum heims og hún hefur farið um heim allan til að veiða lax.

„Ég hef komið víða á stórkostlega staði til veiða.“

Hún segist ekki fara eins víða núna, einfaldlega vegna þess að það séu viðsjárverðir tímar bæði sé litið til mengunar og svo stríðsástands. Hún segist til dæmis hafa um tíma farið til Mongólíu til að veiða en það sé ekki óhætt, þangað leiti Kínverjar nú gráir fyrir járnum.

Lilla hóf að stunda laxveiðar eftir að hún missti eiginmann sinn rétt rúmlega fimmtug. Í Aðaldal hefur hún ávallt haft sama leiðsögumanninn, Árna Pétur Hilmarsson, sem var á unglingsaldri þegar hann fékk það hlutverk að lóðsa hana um Aðaldalinn. Það er greinilega mikil væntumþykja þeirra á milli og Lilla hlær þegar hún lýsir því að hann þurfi að halda í belti sitt svo straumurinn hrífi hana ekki með sér út í á.

Laxá í Aðaldal gintær nú um stundir

Árni Pétur segir hana sannarlega magnaða konu en blaðamaður Vísis ræddi við þau á leið út á flugvöll.

„Þetta var erfitt hjá okkur núna. Við settum í þrjá og hún landaði einum. Það er rosalega tregt,“ segir Árni Pétur sem lýsir aðstæðum í Laxá í Aðaldal.

„Áin er svo heit og tær og svo er hún lág í vatni. Hún hefur ekki verið svona tær í 40 ár og fiskurinn flýr ofan í dýpið og erfitt að eiga við hann. Hann er ekki á sínum hefðbundnu slóðum.“

Allt kengbogið enda er stórlax á.
Árni Pétur vitnar í nafna sinn Einarsson sem rekur rannsóknarstofu við Mývatn. Hann segir að árin hreinsi sig á áratuga fresti og þá er hún tær eins og ginglas.

„Nú sér botninn lengst útí. Hún er yfirleitt aðeins grænleit en ekki núna.“

Bubbi Morthens er á leiðinni í Aðaldalinn á fimmtudaginn næstkomandi og hann er bjartsýnn á að þá muni hafa kólnað og áin taki við sér, en Bubbi setti persónulegt met í fyrra, hann landaði fjölda laxa sem voru yfir 20 pund.

Einmitt í Laxá í Aðaldal sem hann segir ána með stórum staf og greini. Bubbi er ágætur vinur Lillu Rowcliffe sem er með auðugustu konum heims en Bubbi lýsir ævintýralegu lífshlaupi hennar í bók sinni Áin, sem fjallar um Laxá í Aðaldal.

Tengist mörgum helstu atburðum 20. aldarinnar

„Jájá, við erum ágætis vinir,“ segir Bubbi. Og spurður hvernig hann myndi lýsa henni svarar hann af bragði: „Spartverji.“

Já?

„Já, hún grjóthörð. Hún kastar sjálf, kastar vel ennþá, 92 ára. Notar ekki bremsu á hjólinu heldur glímir við laxinn með höndunum. Hún er naumhyggjumanneskja í mataræði. Og hún hefur sínar skoðanir. Og sína lífssýn; skemmtileg og ljóngáfuð. Og eldklár veiðikona og hefur sett met víðsvegar um heiminn í lax- og fluguveiði. Dásamleg kona. Fyrirmynd okkar allra hvað hörku og dugnað við veiðarnar varðar. Hún er á pari við þá bestu. En, hún skorar hærra en flestir aðrir sem ég þekki með aga og hörku. Þar kemst enginn karlmaður í hálfkvisti við hana,“ segir Bubbi og fer hvergi leynt með aðdáun sína á þessari vinkonu sinni.

Hann segir lífshlaup hennar ævintýralegt, minni helst á Munchausen eða Zelig eftir Woody Allen. Það megi lesa mannkynssögu 20. aldarinnar í lífshlaupi hennar:

„Hún sat í tvö kvöld og sagði mér ævisögu sína. Hvort Raspútín var ekki vinur mömmu hennar! Halló! Þetta er alveg geggjað.“

Faðirinn studdi Hitler og nasistana

Einar Falur Ingólfsson, blaðamaður, ljósmyndari og veiðimaður tók viðtal við Lillu fyrir Morgunblaðið sem birtist árið 2007 og þar er komið inn á þetta, að hún hafi alist upp við mikla auðlegð.

Sir Henri Deterding var faðir hennar, annar stofandi og aðaleigandi Royal Dutch – Shell olíufélagsins og talinn efnaðasti maður heims á sínum tíma. Móðir hennar var Lydia Pavlovna Koudoyarov, rússnesk og hafði verið við rússnesku keisarahirðina eftir aldamótin. Móðirin var eitt helsta samkvæmisljón í London.

„Hún var mjög glæsileg kona en vonlaus móðir, sú versta,“ segir Lilla Einari Fal og glottir.

Lilla var með barnabarni sínu við veiðar í Aðaldalnum og segir það einstaklega ánægjulegt að kynna Ísland fyrir því. Og það ætlar hún að gera að ári en hún á sex börn og sautján barnabörn.
Þegar faðir hennar féll frá voru Lilla og systir hennar Olga í skóla í Þýskalandi en Sir Deterding hafði þá kvænst þýskum ritara sínum og vann með nasistum, hann var einlægur hatursmaður kommúnista og studdi kosningabaráttu Hitlers.

Hvort Lilla var ekki bara viðstödd innsetninguna þegar Hitler varð kanslari? Hálfbróðir stúlknanna tekur þær með sér yfir til Englands, þar sem þær voru aldar upp að miklu leyti hjá fjarskyldum ættingjum og í stórum heimavistarskólum.

Fann lífsneistann aftur í veiðinni

En, svo gripið sé beint niður í frásögn Einars Fals:

„Þegar skólagöngu Lillu lauk, í miðri síðari heimsstyrjöldinni, starfaði hún sem aðstoðarkona fallhlífarhermanna, meðal annars í Orkneyjum, og sá um að brjóta saman fallhlífar. Eftir stríðið giftist hún síðan þeim fyrsta af þremur eiginmönnum sínum. „Hann var svo leiðinlegur að við skildum,“ segir hún hlæjandi.

Eiginmennirnir urðu tveir til en báðir létust, og það var henni mikil raun. Þegar Lilla var um fimmtugt lést Olga systir hennar einnig af slysförum, en þær voru mjög nánar. „Ég missti því á nokkrum árum þrjá ástvini, það var erfitt og mér leið mjög illa á þeim tíma,“ segir Lilla. Það var þá sem hún byrjaði að veiða, og svo er að heyra að veiðin hafi hjálpað þessari lífsglöðu konu að finna lífsneistann að nýju.“

Einar Falur lætur þess getið að Lilla Rowcliffe eigi sex börn og sautján barnabörn.

Meðfylgjandi myndir eru birtar með góðfúslegu leyfi Árna Péturs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×