Innlent

Skynsamlegra að ráðast strax í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fulltrúi meirihlutans í Reykjavík segir að ef knýjandi þörf sé fyrir nýjan alþjóðaflugvöll, til að létta á álagi á Keflavíkurflugvelli, ætti Isavia að ráðast strax í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni í stað þess að auka flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Auk þess mætti byggja upp flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum til þess að dreifa ferðamönnum betur um landið.

Framkvæmdastjóri flugvallarsviðs Isavia sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudag að vilji væri til að opna meira á millilandaflug um Reykjavíkurflugvöll en það yrði gert til þess að stytta ferðatíma flugfarþega og létta á álagi á Keflavíkurflugvelli. Hugmyndin hefur verið rædd eftir að British Airways ákváðu að hefja beint flug á milli Keflavíkur og London City-flugvallar.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, sagði í samtali við fréttastofu um helgina að aukið millilandaflug frá Reykjavíkurflugvelli vera eðlilega þróun í vaxandi flugsamgöngum og að ljóst sé draga verði úr álagi á Keflavíkurflugvöll. Hann vill skoða hugmyndir Isavia þess efnis, með þeim skilyrðum að um verði að ræða hljóðlátari flugvélar, líkt og Isavia leggur til.

Staðgengill borgarstjóra segir að ef knýjandi þörf sé fyrir nýjan alþjóðaflugvöll ætti Isavia að skoða aðra kosti.

„Það er nú ekki markmið borgaryfirvalda að auka umferð á Reykjavíkurflugvelli enda er þetta nú ekki flugvöllur sem að verður þarna um ókomna tíð. Ef að það er orðin einhver knýjandi þörf á öðrum alþjóðaflugvelli að þá mundi ég nú telja skynsamlegra að ráðast bara strax í uppbyggingu Hvassahrauns-flugvallar,“ segir S. Björn Blöndal, staðgengill borgarstjóra.

Björn segir skynsamlegt að huga að því að tengja betur saman innanlandsflug og millilandaflug, með tilliti til dreifingar ferðamanna um landið og jafnvel með því ná skaplegra verði á farmiðum í innanldansflugi.

„Ef að þetta verður til þess að opna augu Isavia, flufélaganna og ríkisins á brýnni þörf fyrir beina tenginu innanlands- og millilandaflugs að þá er það í sjálfu sér ágætt. En þetta er engin framtíðarlausn,“ segir Björn.

Björn segir það skýrt í stjórnarsáttmála Ríkisstjórnarflokkanna að flugvallarmálið í Vatnsmýri verði leitt til lykta.

„Það gera sér allir grein fyrir því að það er aðeins tímaspursmál hvenær flugvöllurinn í Vatnsmýri í raun og veru lokar en ég mundi nú segja ef að það knýjandi þörf á að fá hér annan alþjóðaflugvöll að þá væri kannski skynsamlegra að styrkja flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri en frekar til þess að létta á Keflavíkurflugvelli. Það mundi líka stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna,“ segir Björn.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×