Enski boltinn

Man. City hefur eytt meira en 43 milljörðum í að styrkja vörnina sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Mendy er orðinn dýrasti varnarmaður heims.
Benjamin Mendy er orðinn dýrasti varnarmaður heims. Mynd/Twitter-síða Man. City
Það er sagt að vörnin vinni titla og forráðamenn Manchester City ætla að greinilega að láta reyna á þá kenningu ef marka má hvað félagið er tilbúið að eyða miklum pening í að styrkja sig á þeim enda vallarins.

Í gegnum tíðina hafa stóru fótboltafélögin út í Evrópu eytt langmestum peningi í sóknarmenn og miðjumenn en varnarmenn og markmenn hafa aftur á móti farið á milli félaga fyrir miklu minni pening.

Enska úrvalsdeildarliðið Manchester City hefur ekki fetað sömu slóð á sumarmarkaðnum síðustu ár. Þar á bær er ekki síður verið að eyða risaupphæðum í varnarmenn og markverði.

Manchester City leikur gegn West Ham á Laugardalsvelli þann 4. ágúst næstkomandi og líklegt að ein dýrasta varnarlína heims verði þar í eldlínunni.

Bara í sumar hefur Manchester City keypt tvo bakverði, markvörð og miðvörð fyrir samtals 164 milljónir punda eða 22,6 milljarða íslenskra króna. Tvisvar hefur City gert leikmann að dýrasta varnarmanni sögunnar, fyrst með kaupum á Kyle Walker frá Tottenham og svo aftur með kaupum á Benjamin Mendy frá Mónakó.

Ef við förum aftur til 2014 þá hefur City eytt meira en 300 milljónum punda í leikmenn sem spila annaðhvort í vörn eða í marki. 307 milljónir punda í átta leikmenn sem þýðir að hver hefur kostað meira en 38 milljónir punda að meðaltali. 307 milljónir punda eru 42,3 milljarðar íslenskra króna.

Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola taldi sig greinilega þurfa að styrkja varnarleik liðsins á síðustu leiktíð. Eitt besta dæmið um það var þegar City datt úr úr Meistaradeildinni á móti Mónakó þrátt fyrir að skora sex mörk í tveimur leikjum á móti franska liðinu.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir söfnun City á varnarmönnum.



Stórkaup Manchester City á varnarmönnum og markvörðum síðustu sumur:

2014

Miðvörðurinn Eliaquim Mangala frá Porto á 42 milljónir punda

2015

Miðvörðurinn Nicolás Otamendi frá Valencia á 38 milljónir punda

2016

Markvörðurinn Claudio Bravo frá Barcelona á 15 milljónir punda

Miðvörðurinn John Stones frá Everton á 48 milljónir punda

2017

Markvörðurinn Ederson frá Benfica á 35 milljónir punda

Bakvörðurinn Kyle Walker frá Tottenham á 50 milljónir punda

Miðvörðurinn Danilo frá Real Madrid á 27 milljónir pund

Bakvörðurinn Benjamin Mendy frá Mónakó á 52 milljónir punda

Samtals: 307 milljónirpunda






Fleiri fréttir

Sjá meira


×