Sport

Nýkrýndur heimsmeistari á nú tíu bestu tímana frá upphafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Peaty með gullið sitt.
Adam Peaty með gullið sitt. Vísir/Getty
Bretinn Adam Peaty varði í kvöld heimsmeistaratitil sinn í 100 metra bringusundi og setti um leið nýtt heimsmeistaramótsmet á HM í sundi í Búdapest.

Bretar unnu tvö gull í kvöld því Ben Proud vann 50 metra flugsundið. Hin ungverska Katinka Hosszú varð heimsmeistari í 200 metra fjórsundi og hin sænska Sarah Sjöström setti nýtt heimsmeistaramótsmet þegar hún vann 100 metra flugsund.

Adam Peaty kom í mark í 100 metra bringusundinu á 57,47 sekúndum eða 0,34 sekúndum frá heimsmeti sínu. Hann kom í mark meira en sekúndu á undan næsta manni sem var Kevin Cordes frá Bandaríkjunum en þriðji varð síðan Rússinn Kirill Prigoda.

Hinn 22 ára gamli Adam Peaty vann einnig Ólympíugullið í Ríó en hann tvíbætti meistaramótsmetið, fyrst í undanrásum og svo aftur í úrslitum.

Eftir þessi tvo flottu sund þá á Adam Peaty nú tíu bestu tímana frá upphafi í 100 metra bringusundi sem er mögnuð staðreynd sem um leið lýsir vel hversu mikill yfirburðarmaður hann er í dag.

Landi hans Ben Proud vann 50 metra flugsundið á 22,75 sekúndum en annar var Nicholas Santos frá Brasilíu og þriðji Andriy Hovorov frá Úkraínu.

Sarah Sjöström vann þriðja heimsmeistaragullið í röð í 100 metra flugsundi og hefur nú unnið þessa grein fjórum sinnum á HM. Sjöström vann fyrst í Róm 2009 en hefur síðan unnið hana 2013 í Barcelona, 2015 í Kazan og svo nú 2017 í Búdapest.

Sjöström kom í mark á 55,53 sekúndum en önnur var Emma McKeon frá Ástralíu og þriðja Kelsi Worrell frá Bandaríkjunum.

Katinka Hosszú frá Ungverjalandi kom í mark í 200 metra fjórsundi á 2:07.00 mínútum en önnur var Yui Ohashi frá Japan og þriðja Madisyn Cox frá Bandaríkjunum. Líkt og Sjöström þá vann Hosszú einnig þessa grein á HM 2013 og HM 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×