Enski boltinn

Sky Sports: Everton hækkar tilboð sitt í Gylfa upp í 45 milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Samkvæmt heimildum Sky Sports þá hefur Everton komið með nýtt tilboð í íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson.

Í frétt Sky Sports segir að Everton ætli að bjóða 45 milljónir punda í Gylfa en þar af eru fimm milljónir í formi bónusgreiðslna nái Gylfi ákveðnum markmiðum með Everton.

Swansea City hefur þegar hafnað 40 milljón punda tilboði frá bæði Everton og Leicester City og forráðamenn félagsins segjast vilja fá 50 milljónir punda fyrir íslenska miðjumanninn.

Gylfi fór ekki með Swansea City í æfingaferð til Bandaríkjanna sem ýtti enn frekar undir þær sögusagnir að hann væri að fara frá Swansea. Þá hafa enskir miðlar sagt að Gylfi vilji frekar fara til Everton en til Leicester.

Telegraph og Daily Mail segja einnig frá þessu nýja tilboði í Gylfa og þar kemur fram að Everton vonist til að Gylfi verði orðinn leikmaður Everton áður en liðið mætir Ruzomberok frá Slóvakíu í Evrópudeildinni á fimmtudag.

Það hefur verið lítið að frétta af málum Gylfa síðustu daga en nú lítur út fyrir að eitthvað sé að gerast í hans málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×