Innlent

Stefnir í hæsta hita ársins

Sumarið hefur verið í meðallagi gott að sögn veðurfræðings sem telur Íslendinga of góðu vana eftir síðustu ár. Þrátt fyrir þetta er óvenju mikil aðsókn í sólarferðir með skömmum fyrirvara.

Þrátt fyrir að einhverjir gætu verið því ósammála má segja að veðrið fyrri hluta sumars hafi verið í algjöru meðallagi. Úrkoma, hitastig og sólarstundir eru í takti við langtímameðaltal. Sé sumarið hins vegar borið saman við síðustu tíu ár telst það aðeins verra. Veðurfræðingur segir góðviðri síðustu ára skekkja samanburðinn.

„Það er þessi samanburður sem ég held að sitji svolítið í fólki. Sérstaklega þá yngri kynslóðinni sem upplifði ekki öll þau öll þau óksköp af skítasumrum sem gengu yfir þetta svæði fyrir tuttugu, þrjátíu, fjörtíu árum," segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur.

Hlýrra hefur verið á Norðausturlandi og hefur hitinn þar verið yfir meðaltali síðustu tíu ára. Þar féllu nokkur hitadægurmet í júlí og virðist sólin síðan ætla að gæla við höfuðborgarsvæðið í vikunni.

„Spáin í dag er þannig að við gætum fengið hæsta hita ársins á miðvikudaginn og fimmtudaginn," segir Trausti.

Þá virðist sem bjartara verði á sunnanverðu landinu á næstunni. „Þá ætti að kólna fyrir norðan og það verður þá bjartara veður hér fyrir sunnan. Þannig að það ætti að verða svolítið sumar sunnan undir vegg í góðum garði," segir Trausti.

Þrátt fyrir að tölurnar segi þetta hefur óvenju mikil aðsókn verið í sólarferðir með skömmum fyrirvara.

„Þegar veðrið fór að vera svolítið dökkt yfirlitum sáum við aukna tíðni bókana og þá sérstaklega á síðustu stundu," segir Margrét Helgadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Heimsferða.

„Fólk var að hringja hér inn og spyrja hvort við ættum eitthvað á morgun og jafnvel bara eftir hádegi," segir Margrét. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×