Handbolti

Strákarnir mæta Túnis í sextán liða úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir hafa unnið 4 af 5 leikjum sínum á mótinu til þessa.
Íslensku strákarnir hafa unnið 4 af 5 leikjum sínum á mótinu til þessa. Mynd/@HSI_Iceland
Íslenska 21 árs landsliðið í handbolta mætir Túnisbúum í sextán liða úrslitum HM U21 í Alsír en þetta varð ljós þegar keppni lauk í C-riðlinum í kvöld.

Leikur Íslands og Túnis fer fram á miðvikudaginn en í boði er leikur í átta liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar á móti annaðhvort Svíum eða Þjóðverjum.

Íslenska liðið hefur verið að mæta þessum þjóðum í norðurhluta Afríku því íslenska liðið vann bæði Alsír og Marokkó í riðlinum.

Ísland endaði í öðru sæti í D-riðli og mætir því liðinu í þriðja sæti í C-riðli. Leikirnir í C-riðlinum fóru fram seinna en leikirnir í riðli íslenska liðsins og því þurftu strákarnir að bíða eftir því að sjá hverjir verða næstu mótherjar liðsins á mótinu.

Íslenska liðið átti möguleika á efsta sætinu í riðlinum en tapaði fyrir Króatíu í lokaumferðinni. Króatar mæta Rússum í sextán liða úrslitum og svo annaðhvort Danmörku eða Noregi komist þeir áfram í átta liða úrslitin.

Færeyingar, sem eru á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í handbolta, komust líka í sextán liða úrslitin og mæta þar Frakklandi. Færeyska liðið vann tvo fyrstu leiki sína á mótinu en tapaði síðustu þremur leikjum sínum á móti Noregi, Þýskalandi og Ungverjalandi.

Lið Íslands og Færeyja geta ekki mæst nema að bæði liðin komast alla leið í úrslitaleikinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×