Innlent

Fyrirskipa ákæru í nauðgunarmáli sem var áður fellt niður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kærasti konunnar fékk á dögunum fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa ráðist á meintan geranda í Krónunni.
Kærasti konunnar fékk á dögunum fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa ráðist á meintan geranda í Krónunni. vísir/eyþór
Ríkissaksóknari hefur fellt niður ákvörðun héraðssaksóknara um að gefa ekki út ákæru í nauðgunarmáli. Brotið átti sér stað í heimahúsi fyrir fimm árum en var ekki kært til lögreglu fyrr en fyrir um tveimur árum. Málið komst í kastljós fjölmiðla þegar unnusti konunnar réðist á hinn grunaða í verslun Krónunnar á Granda.

Um fimm ár eru síðan konan fór í partý með þáverandi kærasta sínum þar sem hún hitti vin kærastans. Morguninn eftir vaknaði hún við hliðina á umræddum vini sem hún segir hafa brotið á henni um nóttina. Konan kærði málið þremur árum síðar. Lögregla rannsakaði málið og fór það í framhaldinu á borð héraðssaksóknara. Þar var málið fellt niður.

Telja líkur á sakfellingu

Konan leitaði til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns sem kærði ákvörðunina til ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að héraðssaksóknara bæri að gefa út ákæru í málinu. Það staðfestir Daði Kristjánsson, saksóknari hjá Embætti ríkissaksóknara, við Fréttablaðið.

Athygli vekur að ríkissaksóknari kallar ekki eftir því að héraðssaksóknari skoði málið betur heldur vill að ákæra verði gefin út í málinu. Það bendir til þess að ríkissaksóknari telji meiri líkur en minni á sakfellingu í málinu.

Kærasti réðst á hinn grunaða

Kærasti konunnar fékk á dögunum fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa ráðist á meintan geranda í Krónunni. Var kærastinn við afgreiðslukassann ásamt konunni sem þá var nýbúin að kæra nauðgunina.

Konan hneig niður þegar hún sá manninn og brást kærastinn við með því að ganga aftan að manninum og kýla með krepptum hnefa í andlitið.

Í framhaldinu kýldi hann manninn áfram í andlitið þar sem hann lá á gólfinu. Hann viðurkenndi brotið en bar fyrir sig að hafa misst stjórn á skapi sínu. Honum var gert að greiða meintum nauðgara 400 þúsund krónur í skaðabætur sem og allan sakarkostnað.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×