Erlent

Starfsmenn sendiráðs Ísrael í Jórdan sendir heim

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn standa fyrir utan sendiráðið.
Hermenn standa fyrir utan sendiráðið. Vísir/EPA
Starfsfólk í sendiráði Ísrael í Jórdaníu hefur verið kallað heim. Þar á meðal er öryggisvörður sem skaut tvo Jórdana til bana í gær. Ísraelar segja vörðinn hafa skotið 16 eða 17 ára dreng sem stakk hann með skrúfjárni. Svo virðist sem að hinn Jórdaninn hafi verið skotinn fyrir slysni.

Atvikið hefur leitt til deilna á milli Ísrael og Jórdaníu en yfirvöld í Amman vildu yfirheyra öryggisvörðinn. Ísraelar sögðu hann hins vegar njóta friðhelgi, samkvæmt frétt Reuters.



Jórdanía er eitt af tveimur arabaríkjum sem Ísrael hefur gert friðarsamning við.

Faðir drengsins sem öryggisvörðurinn skaut dregur atburðarásina í efa, eins og henni hefur verið lýst, og segir son sinn hafa unnið í sendiráðinu. Þá hafi hann engin tengsl við öfga- eða vígahópa.

Ísrael og Jórdanía sömdu um að starfsfólkinu yrði hleypt aftur til Ísrael eftir umsátur um sendiráðið. Ekki liggur fyrir hvernig samningar voru gerðir, samkvæmt Times of Israel, en yfirvöld í Amman hafa látið af kröfu sinni um að yfirheyra öryggisvörðinn. Líklegt þykir að samningurinn hafi snúið að hertum öryggisráðstöfunum við musteri í Jerúsalem sem gyðingar kalla Musteri fjallsins, en múslimar kalla Haram al-Sharif. Ísrael hefur tilkynnt að málmleitartæki verða tekin niður þar.

Forsætisráðuneyti Ísrael segir að náið samstarf ríkjanna hafi skipt sköpum til að leysa deiluna.


Tengdar fréttir

Ísrael herðir umdeildar öryggisráðstafanir

Palestínumenn eru æfir vegna hertrar gæslu við einn helgasta stað múslima. Segja brotið á mannréttindum sínum. Málmleitarhliðum var komið upp vegna skotárásar á staðnum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tekur málið fyrir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×