Erlent

Heimtar að Putin láti af stuðningi við aðskilnaðarsinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu. Vísir/EPA
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, fór fram á í dag að Vladimir Putin, forseti Rússlands, léti af stuðningi sínum við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Leiðtogarnir ræddu saman í síma í dag í um tvær klukkustundir ásamt þeim Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseta Frakklands.

Átök hafa blossað upp að nýju í mánuðinum, eins og þau hafa gert á hverju sumri frá því að átökin hófust í apríl 2014, og Rússar eru sagðir hafa flutt herdeildir að landamærum Úkraínu. Talsmaður Putin neitaði því ekki í dag, heldur sagði Rússa hafa rétt á því að flytja herdeildir innan landamæra sinna. Erindreki Bandaríkjanna í Úkraínu, Kurt Volker, segir að ástandið sé farið að líkjast hefðbundnu stríði.



Volker segir einnig að yfirvöld í Bandaríkjunum séu að íhuga að senda stjórnvöldum í Kænugarði vopn til að berjast gegn aðskilnaðarsinnunum. 



Sameinuðu þjóðirnar segja minnst tíu þúsund manns hafa fallið í átökunum frá því að þau hófust, skömmu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga frá Úkraínu. Rúmlega 1,6 milljón manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Yfirvöld í Rússlandi hafa ávallt þrætt fyrir að styðja við bakið á aðskilnaðarsinnunum með bæði vopnum og mönnum. Fjölmargir rússneskir hermenn hafa látið lífið í Úkraínu og verið handsamaðir, en yfirvöld hafa meðal annars sagt þá hafa farið til Úkraínu í fríi sínu, eða þeir hafi verið hættir í hernum.

Æðsti yfirmaður aðskilnaðarsinnanna, Alexander Zakharchenko, sagði í síðustu viku að hann vildi byggja nýtt ríki á grunni Úkraínu. Það ætti að heita „Malorossiya“ eða Litla Rússland.

Friðarsamkomulag var undirritað í Hvíta-Rússlandi í febrúar 2015. Það hefur þó margsinnis verið brotið af báðum aðilum. Enn er þó talið að það sé besta leiðin að friði í Úkraínu og var áðurnefnt símtal liður í að reyna að endurvekja það.


Tengdar fréttir

Úkraína vill inn í NATO

Ríkisstjórn Úkraínu tilkynnti í dag að viðræður við Atlantshafsbandalagið munu hefjast á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×