Erlent

Smitaðist af mítli í gegnum kött og lést

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ráðlegt er að hafa allan varann á þegar kemur að mítlum.
Ráðlegt er að hafa allan varann á þegar kemur að mítlum. Vísir/AFP
Japönsk kona lést úr lífshættulegum sjúkdómi, sem berst með mítlum, er hún hlúði að flækingsketti. Talið er að um sé að ræða fyrsta smit af þessu tagi sem berst á milli spendýrs og manns.

Japanska heilbrigðisráðuneytið sagði konuna, sem var á sextugsaldri, hafa verið að hlúa að flækingsketti þegar hún smitaðist. Hún lést tíu dögum síðar úr sjúkdómnum SFTS en einkenni hans eru meðal annars alvarlega hár hiti og blóðflögufækkun. SFTS berst manna á milli með mítlum að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

Ekkert mítilsbit var þó að finna á líkama konunnar og því telja læknar að konan hafi smitast af sjúkdómnum er hún gaf sig að kettinum, sem var sýktur.

SFTS-sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig í Japan árið 2013 en dánartíðni þeirra sem smitast er allt að 30 prósent. Þá er hann sérstaklega erfiður fólki sem komið er yfir fimmtugt.

Mítlar sem leggjast á fólk og sjúga blóð geta orðið til mikilla vandræða. Þeir eru hvað þekktastir fyrir að geta borið sýkil sem veldur svokölluðum Lyme-sjúkdómi í blóðgjafa sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×