Enski boltinn

Sendur heim fyrir að móðga kínversku þjóðina

Kenedy í leik með Chelsea.
Kenedy í leik með Chelsea. Vísir/Getty
Brasilíumaðurinn Kenedy hefur verið sendur heim til Englands frá Kína eftir að hafa móðgað Kínverja á Instagram-síðunni sinni.

Chelsea mætti Arsenal í Peking á laugardag en fyrir leikinn birti Kenedy myndir á Instragram-síðu sinni sem fóru fyrir brjóstið á mörgum Kínverjum.

Létu þeir óánægju sína í ljós með því að baula á Kenedy í umræddum leik. Skipti engu að hann eyddi færslunum og baðst afsökunar.

Chelsea baðst einnig innilegrar afsökunar með yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu sinni og hét því að refsa leikmanninum unga. Hann hefur nú verið sendur heim og tekur því ekki frekar þátt í undirbúningstímabilinu í Kína.

„Hegðun Kenedy voru mistök sem hann mun læra mikið af,“ sagði í yfirlýsingunni.

Kenedy var í láni hjá Watford á fyrri hluta síðasta tímabils en kom eftir það við sögu í tveimur leikjum með Chelsea.

Hér, í frétt goal.com, má sjá myndirnar sem Kenedy birti.

Chelsea mætir Bayern München á ICC-mótinu klukkan 11.30 í dag og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×