Viðskipti innlent

H&M opnar í Smáralind þann 26. ágúst

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það eru eflaust margir sem bíða með eftirvæntingu eftir komu H&M til landsins.
Það eru eflaust margir sem bíða með eftirvæntingu eftir komu H&M til landsins. vísir/getty
Fyrsta verslun sænska verslunarrisans H&M mun opna í Smáralind þann 26. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá versluninni.

Verslunin mun vera á tveimur hæðum og ná yfir rými sem er 3.000 fermetrar.

„Við erum ótrúlega spennt yfir að því hve langt við erum komin með opnunina og hlökkum mikið til að bjóða viðskiptavini okkar velkomna þegar H&M opnar í Smáralind þann 26. ágúst næstkomandi” segir Filip Ekvall, svæðisstjóri fyrir H&M í Noregi og á Íslandi, í tilkynningunni.

„Allar fatalínur H&M verða fáanlegar í versluninni, þar á meðal dömu- og herrafatnaður, barnaföt, skór, aukahlutir, undirföt og snyrtivörur.  Auk þess mun verslunin fá sérstakar línur í sölu eins og H&M Studio og Conscious Exclusive og einnig munu vera fáanlegar hönnunarsamstarfslínur H&M með frægum hönnuðum.

H&M Studio línan mun koma í sölu í H&M í Smáralind fimmtudaginn 14. september næstkomandi.

H&M mun á sjálfan opnunardaginn veita fyrstu 1.000 gestunum gjafakort. Þar á meðal fær sá/sú sem er fyrst/ur 25.000 króna gjafabréf í verslunina, gestur númer tvö fær 20.000 kr. gjafabréf og 15.000 kr. gjafabréf hlýtur þriðji gesturinn. Næstu þúsund gestir fá að gjöf 1.500 króna gjafakort í verslunina.  

Fyrsta H&M verslunin á Íslandi verður staðsett í Smáralind, Hagasmára 1, 201 Kópavogi. Opnunartímar versluninnar eru mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga 11:00-19:00, fimmtudaga 11:00-21:00, laugardaga 11:00-18:00 og sunnudaga 13:00-18:00.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×