Innlent

Skrautblóm í harðgerðri náttúru: Eldlilja trónir ein á heiði fyrir ofan Þórshöfn

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Gurrý segir alltaf ánægjulegt að finna blóm á óvæntum stöðu. Eldliljan sé einstaklega harðgerð og því gæti hún vel lifað þarna áfram og jafnvel dreift úr sér. Tíminn eigi eftir að leiða þetta í ljós.
Gurrý segir alltaf ánægjulegt að finna blóm á óvæntum stöðu. Eldliljan sé einstaklega harðgerð og því gæti hún vel lifað þarna áfram og jafnvel dreift úr sér. Tíminn eigi eftir að leiða þetta í ljós. Vísir/Vilhelm
Það var heldur betur óvænt sjón sem mætti Bjarna Óskarssyni sem var á ferðalagi um Þórshöfn á Langanesi. Uppi á hæð í nágrenni við bæinn sá hann villta eldlilju, sem yfirleitt sést aðeins sem skrautblóm í görðum hér og þar um land allt. Liljan stendur þarna ein á hæðinni og trónir yfir öllu eins og sannri eldlilju sæmir. Drottning í harðgerðu ríki sínu.

„Ég veit ekki hvort einhver hafi sett þetta þarna en það var ekkert jarðrask í kringum þetta þannig að þetta virðist vera sjálfsáð,“ segir Bjarni í samtali við Vísi. Hann segist ekki vita hvað hún hafi verið þarna lengi. Hann hafi verið á ferð þarna með heimamanni sem hafði heldur aldrei séð liljuna þarna áður. Bjarna finnst þetta mjög merkilegt enda Þórshöfn ekki þekkt fyrir að vera hlýjasta svæðið á Íslandi.

Eldliljan er sú eina á svæðinu. Líklegast hefur nú náð að sá sér með aðstoð frá fugli sem hafi borið fræ af plöntunni þangað.Björn
Harðgert blóm

Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur, einnig þekkt sem Gurrý, segir í samtali við Vísi að eldliljan sé fremur harðgert blóm og líklega hafi fugl sáð henni fyrir slysni.

„Það er nú örugglega einhver sem hefur aðstoðað hana við að komast þangað. Eldliljur geta fjölgað sé með litlum laukum sem eru kallaðir æxlilaukar og eru svartar kúlur í blaðöxlum á þessari plöntu og það getur verið að fugl hafi tekið þetta, haldið að þetta væri eitthvað góðgæti, flogið með þetta upp á hæð því eldliljur eru harðgerðar og algengar um allt land í görðum. Það er sennilegasta  skýringin,“ segir Gurrý í samtali við Vísi.

Gæti myndast þyrping

Eldliljan er garðplanta sem var áður fyrr mjög vinsæl í mörgum görðum. Hún datt síðan úr tísku að sögn Gurrýjar því fólki fannst þetta vera púkalegt og gamaldags ömmublóm. Hún sé nú að ganga í endurnýjun lífdaga enda afar blómfagurt blóm. Aðspurð hvort eldliljan eigi eftir að hertaka Langanes segir Gurrý það ólíklegt.

„Ég sé ekki fyrir mér að hún verði eins og skógarkerfill, að hún fari að leggja undir sig Langanesið,“ segir Gurrý en hún nefnir að hún gæti komið sér fyrir þarna og lifað áfram ef jarðvegurinn er góður.

„Hún er nægjusöm og dugleg og ef hún nær að þroska nýja æxlilauka þá gæti myndast þarna þyrping af eldliljum en tíminn verður að leiða það í ljós. Nú hefur breyst svo mikið veðurfarið. Plöntur sem voru alltaf til friðs og gerðu aldrei neitt af sér, þær eru allt í einu farnar að dreifa sér um allt,“ segir Gurrý og tekur bjarnarklóna sem dæmi.

Veðurbreytingar hafa áhrif

Bjarnarklóin var aðeins glæsilegt garðblóm áður en hún varð að nýrri plágu sem Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög hafa hafist við að reyna að uppræta líkt og Vísir greindi frá í síðustu viku. Gurrý býst þó ekki við því að eldliljan feti ekki sömu spor og til að mynda bjarnarklóin eða lúpínan.

Gurrý segir að það sé alltaf gaman þegar það dúkkar upp planta á óvæntum stað og að þetta gerist af og til. Áhugasamir geta nú flykkst á Þórshöfn og litið þessa nýkringdu drottningu hliðanna á Þorshöfn, eigin augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×