Skoðun

Asíu-risar þræta á ný

Helgi Steinar Gunnlaugsson skrifar
Hvað er að gerast?

Árið 1962 braust út stríð milli Kína og Indlands yfir landamæradeilum á Himalaya-svæðinu. Þessar þjóðir höfðu að vísu tekist á nokkrum sinnum áður eftir uppreisnirnar í Tibet árið 1959 og ekki bættust samskiptin þegar Indland ákvað að veita Dalai Lama hæli eftir að hann neyddist til að flýja heimaland sitt. Stríðið stóð yfir í einn mánuð og lauk svo með vopnahléi í nóvember 1962, þegar kínverski herinn hafði hernumið Aksai Chin svæðið frá Indlandi. Samskipti Kína og Indlands hafa síðan þá verið á hálum ís og hafa herir beggja þjóða tekist á í fleiri minniháttar átökum, fyrst árið 1967 og svo aftur 1987. Kínverjar hafa einnig viðhaldið náum samskiptum við Pakistan, sem hafa einnig deilt reglulega við indverska nágranna sinn.

Fyrir rúmum mánuði síðan fór síðan aftur að hitna í kolum þegar kínverski herinn reyndi að lengja þjóðveg sinn frá Yadong-sýslunni í Tíbet sunnan að Doklam hásléttunni. Það svæði er tæknilega undir stjórn Bútan og er það tilkall þeirra stutt af indversku ríkisstjórninni. Það er í raun saga þessara þriggja þjóða sem gerir þessar deilur svolítið flóknar. Bútan undirritaði sáttmála árið 1949 sem gerði Indlandi kleift að stjórna utanríkismálum þeirra og var það samkomulag í gildi fram að árinu 2007. Nýr samningur veitti Bútan auknu sjálfstæði í utanríkismálum og þurfti Bútan til að mynda ekki lengur að fá leyfi frá Indlandi til að flytja inn vopn. Kínverjar viðurkenndu hinsvegar ekki sjálfstæði Bútan fyrr en 1998 og viðhalda í raun engin diplómatísk tengls við þjóðina.

Tengsl milli Indlands og Bútan eru aftur á móti mjög sterk og leitaði einmeitt stjórn Bútans um leið til Indlands þegar þjóðin mótmælti aðgerðum Kínverja á hásléttunni þann 29. júní s.l. Þann sama dag gáfu Kínverjar út yfirlýsingu sem sagði að Doklam væri í raun hluti af Kína og notuðust við eigin landakort og samning sem Bretar höfðu gert við Kína árið 1890. Stjórnvöld í Peking hafa áður fyrr notast við slíkar aðferðir, til dæmis þegar landamæradeilur í Suður-Kínahafi hófust í fyrra. En þessi deila virðist vera að ná ákveðnum suðupunkti þar sem kínversk stjórnvöld hafa núna kallað eftir því að indverski herinn hörfi frá Doklam hásléttunni í kjölfar skotæfinga kínverska hersins á svæðinu.

Landamæradeila eða áreiti?

Ríkisrekna kínverska dagblaðið Global Times, sem er stundum kallað „lúðrasveit Kommúnistaflokksins“ hefur skellt sökinni alfarið á Indland og varar við allsherjar stríði ef stjórnvöld í Delhi draga sig ekki í hlé. Margir sérfræðingar telja að skjót viðbrögð indverska hersins hafi komið Kínverjum á óvart og þá sérstaklega á tíma þar sem stjórnvöld í Peking hafa í auknum mæli verið að leika lausum hala í Suður-Kínahafi.

Þessi hroki sem kínversk stjórnvöld hafa sýnt í Suður-Kínahafi virðist vera að færa sig yfir á önnur landssvæði og er Doklam hásléttan annað dæmi um það. Stríð milli þessara þjóða er alveg hjákvæmanlegt, en eins og Global Times orðaði það: „Kína viðurkennir ekki þessa hásléttu sem indverskt landssvæði. Tvíhliða samræður eru nú í gangi, en andrúmsloftið fyrir þær samræður hafa verið eitraðar af Indlandi. Kína hvorki mælir með, né óskast eftir hernaðaraðgerðum við Indland, en Kína óttast ekki stríð til að varðveita fullveldi sitt heldur og mun gera sig tilbúna fyrir langtíma átök“.

Ríkisstjórnin í Bútan hefur að vísu verið mjög hljóðlát hvað varðar þessa deilu og telur bútanski sérfræðingurinn Passang Dorji það vera sökum stöðu Kínverja og Indverja að notfæra sér Bútan til að ná fram alþjóðlegum pólitískum markmiðum. Hann telur einnig að stjórnvöld í Peking séu að reyna að skilja Bútan og Indland að með því að notfæra sér gremju almennings í Bútan á verndarsamstöðu Indverja.

Varnamálastofnun Bandaríkjanna hefur nýlega hvatt báðar hliðar til að hefja strax hlutlausar viðræður til að leysa þetta mál sem fyrst. Bandaríska ríkisstjórnin hefur einnig neitað að taka sér einhverja hlið í þessari deilu og er greinilegt að alvarleiki málsins er gríðarlegur. Bæði Indland og Kína búa yfir kjarnorkuvopn.

Það er óljóst hvort Kína sé að reyna að sýna hernaðarmátt sinn eða bara hreinlega að athuga hvað hún kemst langt í slíkum landamæradeilum. En ef Indland hyggst bregðast svona hart og fljótt við aðgerðum þeirra í Bútan, þá verða diplómatískar aðferðir að sigra á undan hvatvísni hermanna. Vopnin eru nú öðruvísi og átökin sem stóðu yfir 1962 eru mistök sem ekki mega endurtaka sig.

 




Skoðun

Sjá meira


×