Erlent

Þingnefnd krefur kosningastjóra Trump um opinberan framburð

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Manafort hafnaði því að bera vitni opinberlega og því hefur honum verið stefnt til að koma fyrir þingnefnd.
Paul Manafort hafnaði því að bera vitni opinberlega og því hefur honum verið stefnt til að koma fyrir þingnefnd. Vísir/EPA
Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hefur stefnt Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra, til að þvinga hann til að bera vitni fyrir opnum dyrum. Fulltrúar í nefndinni vilja spyrja Manafort út í meint tengsl forsetaframboðs Donalds Trump við Rússland.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Dianne Feinstein, hæst setta demókratanum í nefndinni, að stefnan hafi verið gefin út eftir að Manafort hafnaði því að bera vitni. Nefndin rannsakar tilraunir rússneskra stjórnvalda til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra.

Í yfirlýsingu frá formönnum nefndarinnar segir enn fremur að Manafort hafi aðeins verið tilbúinn að gefa eina skriflega yfirlýsingu við Bandaríkjaþing sem dómsmálanefndin gæti fengið aðgang að ásamt öðrum nefndum sem rannsaka málið.

Fyrr í dag höfðu bandrískir fjölmiðlar greint frá því að Manafort myndi bera vitni fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar „innan 48 klukkustunda“.

Sat umdeildan fund til að fá skaðlegar upplýsingar um Clinton

Manafort var kosningastjóri Trump þar til í ágúst. Hann hætti eftir að hann var sakaður um hafa þegið óeðlilegar greiðslur frá aðilum hliðhollum Rússum í Úkraínu.

Hann var meðal annars viðstaddur umtalaðan fund með rússneskum lögfræðingi sem sagðist hafa skaðlegar upplýsingar um Hillary Clinton í júní og fyrra.

Jared Kushner, tengdasonur Trump og einn nánasti trúnaðarmaður, kom fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar í gær og fulltrúadeildarinnar í dag. Í bæði skipti fóru yfirheyrslurnar fram fyrir luktum dyrum en í skriflegri yfirlýsingu hafnaði Kushner að hafa átt í samráði við Rússa.

Donald Trump yngri, sonur forsetans, á einnig að koma fyrir þingnefndir til að greina frá fundinum og öðru sem tengist mögulegum tengslum og samskiptum framboðs Trump við rússneska embættis- og athafnamenn í aðdraganda kosninganna og áður en Trump tók við embætti.


Tengdar fréttir

Trump yngri kallaður fyrir þingnefnd

Formaður nefndarinnar, Chuck Grassley, sagði blaðamönnum í dag að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump eldri, yrði einnig kallaður fyrir nefndina.

Enn hrellir Rússagrýlan Donald Trump

Donald Trump yngri sótti fund þar sem honum var lofað upplýsingum um Hillary Clinton. Trump yngri var upplýstur um að upplýsingarnar væru hluti af stuðningi yfirvalda í Rússlandi við framboðið.

Tengdasonur Trump kemur fyrir þingnefnd

Búist er við að spurningar um samskipti við rússneska embætismenn og athafnamenn verði efst á baugi þegar Jared Kushner, tengdasonur og helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, kemur fyrir þingnefnd í dag. Yfirheyrslurnar fara fram fyrir lokuðum dyrum og verður framburður Kushner ekki eiðsvarinn.

Kushner sver af sér samráð við Rússa

Tengdasonur Donalds Trump segist ekki hafa haft neitt samráð við rússneska embættismenn í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra og segist ekki kunnugt um að neinn annar sem starfaði við framboðið hafi gert það. Hann ber vitni um tilraunir Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar fyrir luktum dyrum þingnefnda í dag og á morgun.

Trump reiður dómsmálaráðherra sínum

Segist sjá eftir því að hafa skipað Jeff Sessions í embætti eftir að hann sagði sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum.

„Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana

Í póstunum segir berum orðum að fundurinn sé til að koma upplýsingum í þeirra hendur sem gætu skaðað framboð Hillary Clinton og að það sé liður í aðgerðum stjórnvalda Rússlands til að styðja framboð Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×