Skoðun

„Við erum það sem við gerum“

Þórir Stephensen skrifar
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði frábæra grein í Fréttablaðið 3. júlí sl. Fyrirsögnin var „Við berum það sem við gerum.“ Síðar í greininni kemur svo annað snjallyrði, sem ég hef gert að fyrirsögn hér: „Við erum það sem við gerum.“ Þarna ræðir hann mál lögmannsins Róberts Árna Hreiðarssonar, sem nýlega hefur hlotið „uppreisn æru“ eftir afleit mál, sem allir þekkja í dag.

Ég ætla ekki að endurtaka neitt af málflutningi Guðmundar Andra. Greinin er enn á vísir.is og ég skora á blaðið að láta hana standa þar enn um sinn, svo menn getið lesið þennan þarfa boðskap. Ég skora svo ekki síður á alla, sem láta sig framtíð manns og heims einhverju skipta, að lesa greinina vel. Málflutningur skáldsins er, að mínum dómi, fullkomlega í samræmi við þá siðfræði sem lúthersk kirkja boðar. Ég á ekki von á því, að aðrir hefðu gert þessu máli betri skil, a.m.k. ekki ég. Hins vegar hlýt ég að þakka Guði fyrir þann innblástur sem hann gaf Guðmundi Andra í þessari hugleiðingu.

Að lokum langar mig að vekja enn frekari athygli á snjallyrðunum tveimur, sem hann gefur þarna íslensku máli, menningu og hugsun. „Við erum það sem við gerum.“ „Við berum það sem við gerum.“ Þetta eru gullkorn, sem hljóta að verða að „klassík“ ekki síður en margar þekktar tilvitnanir í verk hinna vænstu manna fyrr og síðar, sumar umvafðar glæsileik hinnar latnesku tungu. Ég skil ekki þann prédikara, sem ekki nýtir sér fljótlega þær gersemar, sem okkur hafa nú verið gefnar. Kannski sannast það þá á honum, að við mennirnir erum einnig það sem við gerum ekki.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×