Skoðun

Dýrið maðurinn. Hugleiðing.

Sigríður Margrét Örnólfsdóttir skrifar
Aragrúi tegunda dýra byggja jörðina. Tegundirnar stjórnast af eðlishvötinni að komast af. Maðurinn hefur komið sér upp kerfum og tækni til hjálpar. Hann er rándýr en ekki nota allar tegundir þá aðferð til að lifa af. Maðurinn hefur háleitar hugmyndir um sig og yfirburði sinnar tegundar vegna skynsemi. Er það raunhæft mat?

Grimmdin í mannskepnunni á sér ótal birtingarmyndir. Maðurinn drepur og kúgar einstaklinga og hópa eigin tegundar miskunnarlaust þjóni það hagsmunum. Drápsfýsn hjá mönnum einskorðast ekki við slíkt eða að afla sér matar. Einstaklingar sem svala hvötum eins og minkurinn í hænsnabúinu finnast. Mottó minksins að drepa sem flestar hænur af því hann fær kikk út úr því. Svo er það saddi, kelni heimiliskötturinn sem drepur smáfugla.

Maðurinn stjórnast af eiginhagsmunatengdri hentistefnu sem birtist í trúar og viðhorfstjáningu sem litar breytni hans. Það eru þó mjög mismunandi ríkjandi eiginleikar milli einstaklinga. Skýringanna má leita í forfeðrum mannsins, manntegundum sem blönduðust. Menn sem lifðu sem rándýr og menn sem gerðu það ekki. Mismunandi eiginleikar þessarra tegunda skapa erfðamengi. Það er ekki hægt að samsama rándýr sem drepa einungis það sem þau þurfa sér til matar og ráðast ekki á eigin tegund mannrándýrinu. Maðurinn stjórnast af græðgi og tekur sér miklu meira en hann þarf af sameiginlegri auðlind allra skepna. Einkenni nútímans er að sífellt er verið að markaðsetja fleiri þarfir af gróðahyggju og auðsöfnun á fárra hendur. Stór hluti mannkyns líður vegna þessa.

Miðað við þetta, hvaða möguleika hefur mannkyn til að komast af miðað við þær ógnir sem steðja að nú? Hvort er heillavænlegra rándýrseðlið eða tegund án þess eðlis sem lifir í sátt við náttúruna og aðlagast? Margir menn virðast búa yfir einhverjum slíkum eiginleikum auk hugsjóna um jafnan rétt allra til að lifa af og njóta lífsins. Ég veðja á slíkt fólk. Talað er um náttúruval og þeir hæfustu lifi af. En er það endilega rándýrseðlinu og eða hentistefnuhugsun í hag?

Sigríður Margrét Örnólfsdóttir fyrrum leikskólakennari, núverandi öryrki, rithöfundur og miðill




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×