Enski boltinn

Stór dagur fyrir Gylfa í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í æfingaleik með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson í æfingaleik með Swansea. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson hittir í dag aftur liðsfélaga sína í Swansea eftir að hann missti af æfingaferð liðsins til Bandaríkjanna.

Velski miðilinn Wales Online slær því upp að þetta sé stór dagur fyrir Gylfa þar sem að hans mál verði í brennidepli. Gylfi hefur verið sterklega orðaður við Everton að undanförnu en Swansea hafnaði á mánudag 40 milljóna tilboði í íslenska landsliðsmanninn.

Sjá einnig: Swansea sagði líka „nei takk“ við nýja tilboðinu í Gylfa

Bandarískir eigendur Swansea vilja fá 50 milljónir fyrir Gylfa og sætta sig við ekkert minna. Höfnuðu þeir tilboði Everton nánast samstundis á mánudag.

Mál Gylfa Þórs hafa verið til mikillar umfjöllunar í allt sumar og ákvað hann að sleppa æfingaferð Swansea þar sem honum fannst hann ekki nógu vel stemmdur í hana, vegna óvissu um framtíð sína. Var það gert í samráði við forráðamenn félagsins.

Mun Gylfi Þór Sigurðsson spila í bláu með bæði félagsliði og landsliði?Vísir/Getty
Gylfi hefur síðustu vikurnar verið að æfa með U-23 liði Swansea og þarf Paul Clement, stjóri Swansea, nú að ákveða hvort að hann eigi að taka Gylfa aftur inn í aðalhópinn nú þegar æfingar hefjast aftur í heimabyggð, að sögn Wales Online.

Sjá einnig: BBC: Tilboð Everton í Gylfa í gær var það fyrsta

Líklegt er að viðræður á milli Gylfa og forráðamenn félagsins þurfi fyrst að eiga sér stað. Hvað Everton varðar lítur Swansea nú á að boltinn sé hjá hinum bláklæddu í Bítlaborginni. Þeir eigi næsta skref í baráttunni um Gylfa.

Swansea mætir Birmingham í æfingaleik á laugardag og hefur enn ekkert verið ákveðið hvort að Gylfi verði í hópi Swansea um helgina.

Gylfi Þór á þrjú ár eftir af núverandi samningi sínum við Swansea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×