Enski boltinn

Guardiola ekki búinn að gefast upp á Mbappe

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola, stjóri Manchester City.
Pep Guardiola, stjóri Manchester City. Vísir/Getty
Franski táningurinn Kylian Mbappe er sjálfsagt á óskalista allra stærstu félagsliða Evrópu en þessi átján ára sóknarmaður er á mála hjá frönsku meisturunum í Monaco.

Félagið neitaði fregnum þess efnis í gær að félagið hefði komist að samkomulagi við Real Madrid um að selja kappann til Spánar fyrir 22 milljarða króna, 180 milljónir evra, líkt og fullyrt var í spænskum fjölmiðlum.

Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var spurður um Mbappe fyrir leik liðsins gegn Real Madrid á ICC-mótinu í nótt á blaðamannafundi í morgun.

„Það getur allt gerst,“ sagði Guardiola á fundinum þegar hann var spurður um framtíð Mbappe.

Í síðustu viku hótaði Monaco að kæra bæði Manchester City og PSG til FIFA fyrir að ræða við samningsbundinn leikmann í leyfisleysi.

„Leikmaðurinn er enn í Mónakó - enn í því liði,“ sagði Guardiola. „Það getur allt gerst. Við erum að skoða marga leikmenn en hann er enn í því liði.“

Forráðamenn Manchester City hafa verið afar duglegir við að kaupa leikmenn í sumar og eytt meira enn 200 milljónum punda. Guardiola sagði að City gæti vel keppt við Real Madrid og Barcelona um stærstu bitana á markaðnum.

„Real Madrid á ekki meira en Manchester City. Vi þurfum bara tíma að komast á sama stað og Barcelona og Real Madrid.“

Þess ber að geta að Alexis Sanchez, stjarna Arsenal, hefur verið sterklega orðaður við City að undanförnu. Guardiola vildi lítið segja um hans mál á fundinum.

Alls fara þrír leikir fram í International Champions Cup í dag og eru þeir allir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

23.30 Barcelona - Manchester United

01.00 PSG - Juventus

03.30 Manchester City - Real Madrid




Fleiri fréttir

Sjá meira


×