Innlent

Skútan fundin með brotið mastur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Varðskipið Þór lagði einnig af stað á vettvang en leitaraðgerðum hefur nú verið hætt.
Varðskipið Þór lagði einnig af stað á vettvang en leitaraðgerðum hefur nú verið hætt. Vísir/Anton
Flugvél Isavia hefur fundið bandarísku skútuna, sem sent hafði boð sem bárust neyðarsendi Landhelgisgæslunnar í nótt. Mastrið á skútunni hafði brotnað en engin slys orðið á áhöfn hennar. Leitaraðgerðum hefur verið hætt.

Flugvélin kom á vettvang nú á ellefta tímanum að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni en rannsóknarskipið Árni Friðriksson er enn á leið á vettvang.

„Þrír voru um borð í skútunni og ekkert amar að þeim. Mastrið á skútunni hafði brotnað og rafmagnslaust var um borð,“ segir í tilkynningunni.

Um klukkan hálf fimm í nótt bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð úr neyðarsendi skútunnar djúpt suðvestur af landinu, skammt utan við íslensku lögsögumörkin. Árni Friðriksson lagði þegar af stað á vettvang og þá var varðskipið Þór einnig kallað til.

Um klukkan níu var flugvél Isavia send af stað á vettvang og Challenger, eftirlitsflugvél danska flughersins í Kangerlussuaq á Grænlandi, var einnig kölluð út. Leitaraðgerðum hefur nú verið hætt.

Uppfært klukkan 11:06:

Í fyrstu tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sagði að rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefði fundið skútuna. Það reyndist rangt en flugvél Isavia kom fyrst á vettvang og kom auga á skútuna. Þetta hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×