Innlent

Skipverjar skútunnar komnir um borð í rannsóknarskipið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson var í um þrjátíu sjómílna fjarlægð frá vettvangi þegar neyðarboð barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um hálf fimm í nótt.
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson var í um þrjátíu sjómílna fjarlægð frá vettvangi þegar neyðarboð barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um hálf fimm í nótt. Vísir/GVA
Skipverjar á bandarísku skútunni, sem flugvél Isavia fann á ellefta tímanum í dag, eru komnir um borð í rannsóknarskipið Árna Friðriksson sem nú er komið á vettvang. Mastur skútunnar, sem lét úr höfn frá Virginíu-ríki í Bandaríkjunum í byrjun þessa mánaðar, hafði brotnað og rafmagnslaust var um borð. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Kveikt var á sendinum, sem sendi neyðarboðin, handvirkt og því reyndist full ástæða til að ætla að þarna væri alvara á ferð. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var í þrjátíu sjómílna fjarlægð frá staðsetningu sendisins og óskaði því stjórnstöð eftir því að hann færi þegar í stað á vettvang. Einnig var varðskipinu Þór, sem er við eftirlit suður af landinu, stefnt þangað. Sökum þess að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, er við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafi á vegum Frontex var flugvél Isavia kölluð út, svo og Challenger-eftirlitsvél danska flughersins í Kangerlussuaq á Grænlandi.

Leitaraðgerðirnar voru blásnar af þegar í ljós kom að ekki var alvarleg hætta á ferðum. Mastur skútunnar hafði brotnað af og rafmagnslaust var um borð. Varðskipið Þór hélt þó áfram för sinni á vettvang.

„Samkvæmt upplýsingum frá Árna Friðrikssyni eru skipverjar á skútunni komnir um borð í rannsóknarskipið. Þeir yfirgáfu skútuna í gúmmíbjörgunarbát. Óljóst er hvert framhaldið verður með skútuna, það fer eftir ástandi hennar,“ segir í tilkynningunni.

Skútan lét úr höfn frá Virginíu-ríki í Bandaríkjunum í byrjun þessa mánaðar, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku strandgæslunni. För skútunnar var heitið til Íslands en þrír voru um borð.


Tengdar fréttir

Skútan fundin með brotið mastur

Flugvél Isavia hefur fundið bandarísku skútuna sem sendi frá sér neyðarboð í nótt. Mastur hennar hafði brotnað og rafmagnslaust orðið um borð. Leit hefur verið hætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×