Innlent

Aflýsa flugi WOW air til Cork vegna bilunar: Farþegar ósáttir

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Nánar er ekki vitað um bilunina.
Nánar er ekki vitað um bilunina. Vísir/Vilhelm
Búið er að fresta flugi Wow air til Cork í Írlandi vegna bilunar í flugvél. Inga María Árnadóttir og Haraldur Sigþórsson áttu bókað flug með vélinni kl 6:40. Þeim var tilkynnt um seinkun en það var ekki fyrr en um níu leitið sem það kom í ljós að ferðinni var frestað vegnar bilunar.

Þau gagnrýna bæði flugfélagið fyrir að vera í litlum samskiptum við farþega og segja að þau hafi varla fengið neinar upplýsingar.

„Við áttum bókað með þessari flugvél til Cork kl 6:40. Svo líður og bíður. Fyrst fáum við að vita að það komi meiri upplýsingar klukkan átta. Svo var klukkan orðin vel yfir níu þá komu loksins þær upplýsingar að það hafi verið hætt við flugið. Manni brá ekkert lítið. Þetta er náttúrulega búið að taka alla nóttina,“ segir Haraldur.

Þau hafi fengið þrjá möguleika; hætta við flugið og fá endurgreitt, að velja annan áfangastað eða að fara seinna. Haraldur segir alla þessa kosti vera vonda, þau fái líka engar skaðabætur. Haraldur nefnir að hann sé í hjólastól og því eigi hann ekki jafn auðvelt með að standa í svona löguðu. Erfiðara sé að standa í slíkum breytingum.

Inga María segir í samtali við Vísi að þau hafi ákveðið að taka vélina til Dublin og að þau verði að reyna að redda sér þaðan til Cork. Þau hafi haft fimm klukkutíma til að taka ákvörðun um hvert næsta skref yrði.

„Mér sýndust einhverjir hafa hreinlega hætt við,“ segir Inga María um aðra farþega og nefnir að henni finnist skrítið að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir fyrir farþega að komast á áfangastað með öðru flugfélagi.

Uppfært 13:15

Samkvæmt WOW air varð bilun í Airbus 320. Haft hafi verið samband við farþegar um leið og þetta hafi verið ljóst og þeim boðin endurgreiðsla eða að færa sig á önnur flug með félaginu. Ekki er reiknað með að bilunin muni hafa frekari áhrif á áæltun WOW air.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×