Erlent

Sænska stjórnarandstaðan krefst afsagnar ráðherra

Kjartan Kjartansson skrifar
Stefan Löfven á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir.
Stefan Löfven á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Vísir/AFP
Líklegt er talið að sænska þingið munu lýsa yfir vantrausti á þrjá ráðherra í minnihlutastjórn Stefans Löfven forsætisráðherra vegna gagnaöryggishneykslsis. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram tillögu að vantrausti.

Anna Johansson, innviðaráðherra, Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra, og Anders Ygeman, innanríkisráðherra, berjast nú fyrir pólitísku lífi sínu vegna þáttar þeirra í misheppnaðri útvistun tölvukerfis samgöngustofnunar Svíþjóðar árið 2015.

Sjá einnig:Hneyksli vegna ríkisleyndarmála skekur sænsku ríkisstjórnina

Ríkisstjórnin hefur viðurkennt að útboðsferlinu hafi verið flýtt og lög hafi verið virt að vettugi þegar IBM í Svíþjóð fékk samning um að reka tölvukerfið. Í kjölfarið gátu starfsmenn í Austur-Evrópu komist í viðkvæm gögn sem geymd voru í kerfinu.

Meðal annars hefur komið fram að heimilisföng sænskra orrustuflugmanna gætu hafa verið aðgengileg fólki sem ekki hafði öryggisheimild til þess.

Atkvæði greidd innan tíu daga

Reuters-fréttastofan greinir frá því að bandalag miðhægriflokka í stjórnarandstöðunni hafi lagt fram vantrauststillögu gegn ráðherrunum þremur. Svíþjóðardemókratar hafa sagst ætla að styðja hana.

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, segir augljóst að ráðherrarnir hafi vanrækt skyldur sínar til að verja öryggi landsins.

Sænska þingið er í sumarfríi en búist er við að þingmenn verði kallaðir saman innan tíu daga til að greiða atkvæði um vantraustið. Jafnvel er talið að efna þurfi til nýrra kosninga verði hún samþykkt.

Ríkisstjórn Löfven er mynduð af þingmönnum Sósíaldemókrataflokks hans og Græningja. Minnihlutastjórnin hefur aðeins tæp 40% þingmanna í sænska þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×