Erlent

Trump: Transfólk má ekki gegna herþjónustu

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump telur transfólk í hernum truflandi og íþyngjandi.
Donald Trump telur transfólk í hernum truflandi og íþyngjandi. Vísir/AFP
Transfólki verður bannað að gegna nokkrum störfum fyrir Bandaríkjaher samkvæmt ákvörðun Donalds Trump forseta. Í röð tísta segir forsetinn að ekki megi leggja „gríðarlegan lækniskostnað og truflun“ sem transfólk hefði í för með sér á herðar hernum.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafði mótað stefnu um að leyfa transfólki að gegna herþjónustu á meðan Barack Obama var enn forseti í fyrra. Sú stefna hafði þó ekki enn tekið gildi og James Mattis, varnarmálaráðherra, tilkynnti í síðasta mánuði að hann ætlaði að fresta gildistökunni.

Trump tísti hins vegar í morgun um að hann hefði ákveðið að leyfa transfólki ekki að þjóna á nokkurn hátt í Bandaríkjaher að höfðu samráði við hershöfðinga og hernaðarsérfræðinga.

„Herinn okkar verður að einbeita sér að ákveðnum og yfirþyrmandi sigri og það er ekki hægt að íþyngja honum með gríðarlegum læknakostnaði og truflun sem transfólk í hernum hefði í för með sér. Takk fyrir,“ tíst Trump.

Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC er vitnaði í tölur sjálfstæðrar stofnunar um að um það bil 2.450 af 1,2 milljónum bandarískra hermanna hafi verið transfólk í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×