Innlent

Á annað hundrað skjálftar mælst í skjálftahrinu á Reykjanesskaga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kortið er af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálftana sem mælst hafa á Reykjanesskaganum í dag.
Kortið er af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálftana sem mælst hafa á Reykjanesskaganum í dag. veðurstofa íslands
Jarðskjálftinn sem varð klukkan 11:40 í dag með upptök norðaustan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga var 3,9 af stærð. Er skjálftinn sá stærsti til þessa í skjálftahrinu á svæðinu sem hófst snemma í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hafa á annað hundrað skjálftar mælst á svæðinu. Ekki er óalgengt að svona hrinur mælist á Reykjanesskaganum og skjálftar að stærð 4 og yfir mælast á nokkurra ára fresti.

„Þarna eru flekaskil, eldstöðvar og jarðhitasvæði eins og við þekkjum svo að já, þetta er virkt svæði,“ segir Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur, í samtali við Vísi.

Aðspurð hvort að þetta geti verið fyrirboði um einhverjar frekari jarðhræringar segir Kristín ómögulegt að segja til um það.

Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við tilkynningu sem barst frá Veðurstofu Íslands klukkan 14:20.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×