Innlent

Banna næturgistingu á vegaköntum og bílastæðum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Borið hefur á því að ferðamenn gisti utan skipulagðra tjaldsvæða á Suðurnesjunum.

Sérútbúnir bílar hafa í auknum mæli dvalið á bílastæðum og við vinsæla ferðamannastaði þar sem engin aðstaða er fyrir bílana. Því hefur fylgt óþrifnaður og óþægindi.

Í maí sendi stjórn Reykjanes Geopark ábendingu til allra sveitarfélaga á Suðurnesjum að breyta lögreglusamþykkt þess efnis að bannað verði að gista í bílum, tjaldvögnum, húsbílum, fellihýsum og hjólhýsum utan skipulagðra tjaldsvæða.

Sveitarfélagið Vogar hefur riðið á vaðið og breytt lögreglusamþykktinni.

„Við erum bara að bregðast við þessari tillögu. Okkur finnst það bara heilbrigð skynsemi að ferðamenn gisti á þartilgerðum tjaldstæðum en ekki á bílastæðum eða stoppi út við veg," segir Ingþór Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar í Vogum.

Með fjölgun ferðamanna á Suðurnesjum hefur borið meira á þessu.

„Ég sæki vinnu í Hafnarfjörð og það er undantekning að ég sjái ekki bíl við mislægu gatnamótin á leiðinni fjörðinn, þar sem ferðamenn hafa næturstað,“ segir Ingþór.

Með breytingu á lögreglusamþykkt segir Ingþór að lögregla geti nú sektað þá sem hafa næturgistingu utan tjaldsvæða á Vogum en tjaldsvæði eru í hverju bæjarfélagi á Suðurnesjum og meira að segja gjaldfrjálst í Vogum.

„Við höfum öll heyrt sögur, annars staðar af landinu, þar sem ferðamenn eru að ganga örna sinna á landinu og við viljum ganga í það áður en í óefni fer hérna á Suðurnesjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×