Viðskipti innlent

Íslendingar hættir við að kaupa Seachill

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Smásölukeðjan Tesco er helsti viðskiptavinur Seachill.
Smásölukeðjan Tesco er helsti viðskiptavinur Seachill. Vísir/EPA
Íslenski fjárfestahópurinn sem lagði fyrr í sumar fram kauptilboð í Sea­chill, dótturfélag Icelandic Group í Bretlandi, hefur hætt við kaupin. Erlent félag, sem tengist ekki sjávarútvegi, er nú sagt eiga í einkaviðræðum við stjórn Icelandic Group um kaup á Seachill.

Félagið Steinasalir, sem er meðal annars í eigu íslensku sjávarútvegsfélaganna Brims, Þorbjarnar, Hraðfrystihúss Hellissands, Kambs, KG fiskverkunar, Sæmarks, Fishproducts Iceland og fagfjárfestasjóðsins Akurs, ákvað fyrr í vikunni að segja sig frá söluferlinu. Sama félag keypti belgíska félagið Gadus af Icelandic fyrr á árinu.

Stjórn Icelandic Group, sem er að fullu í eigu Framtakssjóðs Íslands, ákvað í apríl síðastliðnum að hefja söluferli á Seachill. Félagið, sem var stofnað árið 1998, er leiðandi framleiðandi kældra fiskafurða inn á breska smásölumarkaðinn, en tekjur þess námu um 266 milljónum punda, sem jafngildir um 36,3 milljörðum króna, í fyrra.

Í frétt Undercurrent News segir að kaupverðið á Gadus hafi numið allt að fjörutíu milljónum evra, eða 4,9 milljörðum króna, sem er um áttfaldur rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBIDTA). EBIDTA Seachill nam um 10,4 milljónum punda, sem jafngildir um 1,4 milljörðum króna, í fyrra þannig að ætla má að mögulegt kaupverð á félaginu geti numið yfir tíu milljörðum króna.

Vöxtur Seachill frá stofnun hefur að miklu leyti byggst á nánu samstarfi við Tesco, stærstu smásölukeðju Bretlands, en félagið hefur lengi séð Tesco fyrir fjölbreyttu úrvali sjávarafurða.

Söluferlið er í höndum Íslandsbanka og Oghma Partners.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×