Erlent

Morðin í Gautaborg: Föðurnum sleppt úr haldi

Atli Ísleifsson skrifar
Konan og börnin þrjú fundust eftir að tilkynnt var um eld í íbúðinni.
Konan og börnin þrjú fundust eftir að tilkynnt var um eld í íbúðinni. Vísir/epa
51 árs gömlum karlmanni, sem grunaður var um að hafa orðið eiginkonu sinni og þremur börnum að bana í sænska bænum Angered, skammt frá Gautaborg, í síðustu viku, hefur verið sleppt. Sænskir fjölmiðlar hafa þetta eftir saksóknara þar í landi.

Lögmaður mannsins, Poly Jensell, segir skjólstæðing sinn nú þurfa vinna sig út úr sorginni eftir að hafa misst fjölskyldu sína og síðar hafa verið sakaður um þann hrottalega glæp að hafa orðið henni að bana.

Fólkið fannst eftir að tilkynnt var um eld í íbúðinni. Þar fundust konan og eitt barnanna látin. Hin börnin tvö létust í sjúkrabíl á leiðinni á sjúkrahús og á sjúkrahúsi. Áverkar fundust á líkum fólksins sem varð til þess að lögreglu grunaði að þau hafi ekki látist í brunanum og var maðurinn síðar handtekinn og dæmdur í gæsluvarðhald. Karlmaðurinn, sem er bosnískur ríkisborgari, neitaði alla tíð sök í málinu.

Saksóknarinn Helena Treiberg Claeson segir í samtali við SVT að eftir réttarkrufningu á líki konunnar hafi komið í ljós að hún hafi ekki látist af völdum þeirra áverka sem fundust á líki hennar, líkt og upphaflega var talið, heldur af völdum eldsins. Þá telji réttarlæknir að konan hafi að öllum líkindum veitt sér áverkana sjálf. Segir Claeson að ekkert bendi til að maðurinn hafi verið valdur að dauða fjölskyldu sinnar.

Jensell segir að manninum sé mjög létt að vera loks frjáls ferða sinna. „En nú tekur við það stóra og erfiða verkefni að syrgja. Og svo eru það allar þær spurningar sem eru ósvaraðar. Hvað gerðist? Af hverju? Það er mörgum spurningum ósvarað.“

Maðurinn var giftur konunni, sem var 35 ára, og faðir allra barnanna sem voru á aldrinum tveggja til átta ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×